Fótbolti - Sigurður Ragnar Eyjólfsson ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í fótbolta

19.okt.2013  13:14

Lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Eyjum

Sigurður Ragnar Eyjólfsson skrifaði í hádeginu í dag undir samning við knattspyrnudeild ÍBV út keppnistímabilið 2016.

 

Sigurður Ragnar hefur frá árinu 2007 stýrt kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu og skilað liðinu í tvígang á stórmót. Hann er fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu og fræðslustjóri KSÍ. Sigurður Ragnar lék á ferli sínum með KR, Víkingi, Þrótti og ÍA hér á landi og sem atvinnumaður með Walsall, Chester og KRC Harelbeke.

Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segir ráðningu Sigurðar Ragnars mikla lyftistöng fyrir knattspyrnuna í Eyjum. „Við erum afar ánæðir með að hafa ráðið Sigurð Ragnar. Hann hefur skýra sýn á knattspyrnuna, er vel menntaður og veit hvað þarf til að ná árangri. Hann náði frábærum árangri með kvennalandsliðið og við væntum mikils af hans störfum fyrir ÍBV,“ segir Óskar Örn.

 

Sigurður Ragnar segist ánægður með að vera kominn út í Eyjar. „Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir á ferlinum með því að taka við ÍBV. Það blása ferskir vindar hér í Eyjum og mikill metnaður til að ná árangri. Hér er rík knattspyrnuhefð og öll aðstaða er til fyrirmyndar. Á næstu dögum mun ég setja mig inn í starfið, ræða við leikmenn og hefja undirbúningstímabilið,“ segir Sigurður Ragnar.

 

Sigurður Ragnar mun jafnframt láta af störfum fræðslufulltrúa Knattspyrnusambands Íslands ásamt því að draga umsókn sína um þjálfarastöðu hjá Knattspyrnusambandi Englands til baka.

 

Áfram ÍBV!

 

Óskar Örn Ólafsson
formaður knattspyrnudeildar ÍBV