Þar sem ég, undirritaður, hef ekkert tjáð mig í fjölmiðlum í framhaldi af samkomulagi mínu við stjórn ÍBV um starfslok mín sem þjálfari ÍBV liðsins í knattspyrnu, vil ég þakka íbúum Vestmannaeyja og sérstaklega stuðningsmönnum ÍBV fyrir sumarið og allan þann stuðning, sem ég hef fengið frá þeim. Ég fann í starfi mínu ekkert nema 100% stuðning og velvild í minn garð allan þann tíma, sem ég var í Vestmannaeyjum og ekki síst eftir að ég hætti. Í upphafi móts, þegar á móti blés, kom fólk og klappaði mér á bakið og enginn efaðist um okkar getu til að snúa þessu við. Sem við síðan gerðum og náðum okkar markmiðum þ.e.a.s. að spila góðan fótbolta og ná evrópusæti. Leikmönnum og starfsmönnum liðsins þakka ég ánægjulegt og skemmtilegt samstarf í sumar.
Eyjahjartað mitt er stórt og mun verða áfram. Ég vil óska stjórn, þjálfara og leikmönnum alls hins besta í framtíðinni. Það er trú mín og von að liðið verði áfram í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu.
Með kæru þakklæti fyrir frábært sumar í Eyjum.
Áfram ÍBV
Magnús Gylfason