Fótbolti - Steingrímur Jóhannesson er látinn eftir harða baráttu við krabbamein.

02.mar.2012  22:04
Steingrímur Jóhannesson er látinn eftir harða baráttu við krabbamein, sem hann hafði glímt við  undanfarna mánuði. Steingrímur lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn.

 

Steingrímur var fæddur 14. Júní 1973. Steingrímur hóf sinn fótboltaferil með Þór Vestmannaeyjum. Steingrímur þótti strax efnilegur íþróttamaður bæði í fótbolta og  frjálsum íþróttum, hann vakti athygli fyrir sinn mikla hraða.

 

Steingrímur varð tvívegis Íslandsmeistari, einu sinni bikarmeistari og tvívegis var  hann markakóngur efstu deildar með ÍBV, einnig vann hann bikarkeppnina með Fylki árin 2001 og 2002. 

 

Sumarið 1998  varð Steingrímur markakóngur  með 16 mörk í 17 leikjum, þar sem ÍBV vann bæði Íslandsmeistaratitilinn og bikarkeppnina, Steingrímur var að auki valinn prúðasti leikmaður efstu deildar. Þessi mikli markahrókur skoraði 79 mörk í 189 leikjum í efstu deild, en í öllum deildar og bikarleikjum skoraði Steingrímur 102 mörk í 268 leikjum.


Steingrímur lék einn A-landsleik, vináttuleik við Suður-Afríku 1998, einnig lék hann 2 leiki fyrir 21. árs landsliðið.

Steingrímur var einstaklega vel liðinn og þekktur fyrir sinn sérstaka og skemmtilega húmor, hans verður sárt saknað og megi minningin um hann lengi lifa.

 

 

 

Knattspyrnuráð ÍBV sendir fjölskyldu og öðrum ástvinum Steingríms innilegar samúðarkveðjur.