ÍBV vann í dag sigur á Selfossi, 4:3, í B-riðli Fótbolta.net mótsins. Leikurinn var bráðfjörugur og voru Selfyssingar yfir í hálfleik, 2:1, með mörkum Ólafs Karls Finsen sem kom frá Stjörnunni í vetur og Robert Sandnes sem er á reynslu hjá liðinu. Gunnar Már Guðmundsson, sem kom til ÍBV frá FH í vetur, hafði áður komið Eyjamönnum yfir úr víti.
Í seinni hálfleiknum jafnaði Yngvi Borgþórsson fyrir ÍBV og Tryggvi Guðmundsson kom liðinu svo yfir. Viðar Örn Kjartansson, sem lék um tíma með ÍBV, jafnaði metin í 3:3 fyrir Selfoss með marki úr víti skömmu fyrir leikslok en Tryggvi skoraði öðru sinni strax í kjölfarið og tryggði ÍBV sigur.
mbl.is greindi frá.