Strákarnir í meistaraflokki í fótbolta undirbúa sig nú að kappi fyrir átök sumarsins. Heimir ætlar að halda með lærisveina sína til Oliva Nova á Spáni í æfingabúðir. Liðið mun dvelja þar í rúma viku, æfa tvisvar á dag við bestu mögulegu aðstæður, spila tvo æfingaleiki og samhæfa hópinn fyrir átök sumarsins.
Þar mun Heimir ásamt Dragan Kazic aðstoðarþjálfara sjóða saman leikkerfi sumarsins og þjappa hópnum saman. Þeim til aðstoðar verður Mila Popovich markmansþjálfari og Leifur Geir Hafsteinsson fyrverandi leikmaður ÍBV, núverandi Crossfitt frömuður og sálfræðingur.
Mótið byrjar óvenju snemma í ár og mun fyrsti leikurinn í Pepsídeildinni fara fram á Hásteinsvelli mánudaginn 2. maí.
Áður en haldið verður út munu strákarnir spila gegn Víkingi Reykjavík í Fossvoginum kl. 17:30 á gervigrasi Víkings í Lengjubikarnum (fimmtudaginn 24 mars). Þetta er næstsíðasti leikurinn í Lengjubikarnum þetta árið og verður fróðlegt að sjá hvernig peyjunum tekst til gegn lærisveinum Andra Marteinssonar nýbökuðum þjálfara Víkinga.