Guðjón Orri Sigurjónsson, markvörður í ÍBV skrifaði í hádeginu í dag undir samning hjá félaginu. Guðjón Orri er einn þriggja markvarða en hann er aðeins 18 ára gamall og lék sem lánsmaður með KFS síðasta sumar. Guðjón tók miklum framförum í sumar og verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni. Samningurinn gildir út tímabilið 2013.
Annars er það að frétta úr herbúðum ÍBV að erlendu leikmennirnir sem munu leika með ÍBV í sumar fara að týnast til Eyja hver á fætur öðrum næstu daga. Danski varnarmaðurinn Rasmus Christiansen er væntanlegur til landsins í dag og úganski markvörðurinn Abel Dhaira kemur á morgun. Dhaira þessi kom til Eyja síðasta sumar en hann er 23 ára markvörður og er mjög hávaxinn. Hann lék ekkert með Eyjamönnum en skrifaði engu að síður undir samning við félagið. Dhaira þykir gríðarlega sterkur á milli stanganna en hann var að stíga upp úr erfiðum meiðslum síðasta sumar. Þá mun úkraínski sóknarmaðurinn Denis Sytnik koma til landsins 21. janúar og landi Dhaira, miðjumaðurinn geðugi Tonny Mawejje kemur degi síðar.
„ÍBV hefur aldrei áður verið komið með erlendu leikmennina til sín svona snemma áður. Enda erum við núna komnir með æfingaaðstöðu og getum því kallað þá til okkar fyrr en áður. Tonny kom reyndar til okkar í byrjun febrúar í fyrra en nú verða þeir allir komnir hingað þannig að leikmannahópurinn verður byrjaður að æfa
saman fyrr en nokkru sinni áður,“ sagði Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnuráðs ÍBV.