Fótbolti - Ajay og Chris kveðja ÍBV

01.sep.2009  13:41

Ensku leikmennirnir Ajay Leight-Smith og Chris Clements hafa nú gengið frá félagaskiptum frá ÍBV í Crewe Alexandra.  Leikmennirnir sem komu að láni frá enska félaginu hafa staðið sig gríðarlega vel og verið lykilleikmenn í ÍBV liðinu.  Þetta er því mikið áfall fyrir ÍBV en um leið viðurkenning fyrir leikmennina sem hafa með góðri frammistöðu í Eyjum í sumar vakið athygli þjálfarateymis Crewe sem telur sig hafa not fyrir þá í baráttunni í vetur.

Ajay hefur leikið alla 18 leiki okkar í deildinni á tímabilinu og tvo í bikar, skorað í þeim fimm mörk og er markahæsti leikmaður liðsins.  Chris hefur komið sterkur inn á miðjuna hjá ÍBV, leikið 15 leiki í deild og tvo í bikar og skorað tvö mörk.  Báðir hafa vaxið mikið sem leikmenn þetta sumarið og eru þeir gott dæmi um farsælt samstarf ÍBV og Crewe.

Um leið og knattspyrnuráð óskar þeim félögum góðs gengis í baráttunni með Crewe í vetur þökkum við þeim fyrir þeirra framlag til knattspyrnuliðs ÍBV sumarið 2009 og vonumst eftir að sjá þá aftur í búningi ÍBV  í framtíðinni.