Knattspyrnudeild ÍBV styður heilshugar þá ákvörðun KSÍ að fresta viðurreign Grindavíkur og ÍBV vegna þeirra veikinda sem hrjáð hafa leikmenn Grindvíkinga. Ljóst er að svínaflensan hefur greinst meðal leikmanna félagsins og töluverð hætta á að fleiri smitist hefði leikurinn verið spilaður. Mótanefnd KSÍ hefur með þessari ákvörðun sett skýr viðmið varðandi frestun á leikjum vegna veikinda.
Það gæti orðið erfitt fyrir mótanefnd KSÍ að raða niður síðustu umferðum Íslandsmótsins og þá sérstaklega ef svínaflensan mun herja á fleiri lið en Grindavík. Ljóst er að nú er ÍBV aðeins búið að spila einn leik á tæpum mánuði sökum þess að leikjum hefur verið frestað. Það er hvimleitt á þessum tímapunkti á Íslandsmótinu. Leik KR og ÍBV hefur verið frestað í tvígang. Við gerum okkur hins vegar fulla grein fyrir því að ÍBV eða hvaða annað lið á Íslandi gæti verið næsta félag sem lenti illa í veikindum vegna svínaflensunnar.
Með von um skjótan bata leikmanna Grindavíkur.
Sigursveinn Þórðarson
Formaður knattspyrnuráðs ÍBV