ÍBV komst í 16 liða úrslit VISA bikarsins í gærkvöldi með dramatískum sigri á Víking á Hásteinsvelli. Lokastaðan var 3-2 og kom sigurmarkið frá Viðari Erni Kjartanssyni á 94.mínútu leiksins. Eyjamenn byrjuðu vel og voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Chris Clements kom ÍBV yfir á 22.mínútu eftir magnaða sendingu frá Arnóri Eyvari Ólafssyni. Afgreiðsla Chris var fyrsta flokks og var þetta fyrsta mark Englendingsins fyrir félagið.
Stuttu seinna átti Chris að fá vítaspyrnu þegar hann var felldur við það að komast einn í gegnum vörn gestanna. Dómari leiksins var hins vegar á öðru máli og gaf Chris gult spjald fyrir leikaraskap. Algjörlega óskiljanleg ákvörðun. 1-0 í leikhléi og heimamenn byrjuðu af krafti seinni hálfleikinn og fengu nokkur færi til að skora annað markið. En gestirnir komust meira inn í leikinn og jöfnuðu um miðjan síðari hálfleik. Tíu mínútum fyrir leikslok komust gestirnir síðan yfir. En frábær lokakafli Eyjaliðsins tryggði sætið í 16.liða úrslitum. Ingi Rafn Ingibergsson átti frábæra innkomu og hann jafnaði metin með skallamarki á 88.mínútu. Flestir reiknuðu þá með framlengingu. En þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma átti Andri Ólafsson frábæra sendingu inn fyrir vörn Víkinga, Viðar Örn var kominn einn í gegn en fyrrum leikmaður ÍBV, Chris Vorenkamp braut á honum og dómarinn dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu og rak Vorenkamp af velli. Viðar Örn fór ískaldur á vítapunktinn og skoraði, stönginn inn og var þetta síðasta spyrnan í leiknum. Frábær sigur í erfiðum leik og Eyjaliðið verður því í pottinum þegar dregið verður í 16.liða úrslit á mánudaginn.
Liðið: Albert Sævarsson, Arnór Eyvar Ólafsson, Matt Garner, Eiður Aron Sigurbjörnsson (Tonny Majjewe), Þórarinn Ingi Valdimarsson, Augustine Nsumba (Ingi Rafn Ingibergsson), Yngvi Magnús Borgþórsson (Ajay Leight Smith) , Andri Ólafsson, Gauti Þorvarðarson, Viðar Örn Kjartansson.