Fótbolti - Glæsilegur sigur í Grafarvoginum

29.maí.2009  08:37
ÍBV landaði sínum fyrsta sigri í Pepsi deildinni í gærkvöldi þegar liðið vann sannfærandi sigur á Fjölni í Grafarvoginum 1-3.  Það tók Eyjamenn aðeins fimm mínútur að skora fyrsta markið og var þar að verki Tonny Majjewe eftir glæsilega sendingu frá Gauta Þorvarðarsyni.   Bjarni Rúnar Einarsson fékk að líta rauða spjaldið hjá slökum dómara leiksins strax á 16.mínútu og var það mjög umdeilt svo ekki sé meira sagt.  ÍBV bakkaði aftar á völlinn í kjölfarið og Fjölnismönnum gekk illa að brjótast í gegnum sterka vörn ÍBV.  Í síðari hálfleik áttu flestir von á erfiðum róðri Eyjamanna enda manni færri og að spila á móti strekkingsvindi.

En annað kom á daginn, Englendingurinn Ajay Leight Smith átti góðan leik í gær og kórónaði frammistöðu sína með glæsilegu marki á 53.mínútu.  Hann fékk þá langa sendingu fram frá Pétri Runólfssyni, fór illa með tvo varnarmenn heimaliðsins áður en hann lagði boltann í fjærhornið, óverjandi fyrir markvörð Fjölnis.  Fjölnismenn minnkuðu muninn fimm mínútum síðar en þá varð Andrew Mwesigwa fyrir því óláni að skora sjálfsmark.  Vörn ÍBV hélt vel eftir þetta og áttu Fjölnismenn í mestu vandræðum að skapa sér færi.  Fyrirliðinn Andri Ólafsson skoraði svo glæsilegt skallamark á 65.mínútu eftir góða sendingu frá Matt Garner og innsiglaði glæsilegan sigur Eyjaliðsins.

ÍBV átti sigurinn skilið í gær og má segja að baráttan í liðinu og liðsheildin hafi skapað þennan glæsilega sigur.  ÍBV voru mjög ósáttir að fá ekkert út úr KR leiknum, enda betra liðið á vellinum mestan partinn í þeim leik.  En það var byggt ofan á þann leik og þá uppskar liðið. 

Næsti leikur liðsins er gegn Grindavík á mánudaginn, kl. 19.15 og hvetjum við Eyjamenn til að fjölmenna á leikinn og hvetja okkar menn.

Lið ÍBV:
Albert Sævarsson, Pétur Runólfsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Andrew Mwesigwa, Matt Garner, Bjarni Rúnar Einarsson, Yngvi Magnús Borgþórsson, Andri Ólafsson, Tonny Majjewe, Gauti Þorvarðarson, Ajay Leight Smith.
Inn á komu:
Chris Clements fyrir Gauta Þorvarðarson (35)
Viðar Örn Kjartansson fyrir Ajay Leight Smith (75)
Þórarinn Ingi Valdimarsson fyrir Andra Ólafsson (85)
Gul spjöld: Tonny Majjewe, Pétur Runólfsson, Yngvi Magnús Borgþórsson
Rauð spjöld: Bjarni Rúnar Einarsson og Tonny Majjewe.