Fótbolti - Egill og Anton skrifa undir nýja samninga við ÍBV
30.júl.2008 10:20
Tveir af okkar ungu og efnilegu knattspyrnumönnum, Egill Jóhannsson og Anton Bjarnason hafa framlengt samninga sína við ÍBV til ársins 2010. Báðir leikmennirnir hafa komið mikið við sögu í góðum árangri ÍBV í sumar.
Egill sem er tvítugur hefur leikið í ellefu af fjórtán leikjum ÍBV í deildinni í sumar og alla þrjá leiki ÍBV í VISA bikarnum og staðið sig gríðarlega vel á miðjunni. Alls á hann að baki 27 leiki í meistaraflokki. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir ÍBV í VISA bikarnum árið 2005, í 8 liða úrslitum þegar ÍBV tapaði fyrir Fram 2:1 í framlengdum leik. Egill er af mikilli knattspyrnuætt en faðir hans, Jóhann spilaði lengi vel með Eyjaliðinu og varð meðal annars Íslandsmeistari með ÍBV árið 1979. Bróðir hans, Atli Jóhannsson var lengi lykilmaður í Eyjaliðinu en hann spilar nú með KR.
Anton sem er 21 árs hefur leikið tíu deildarleiki fyrir Eyjaliðið í sumar auk þess sem Anton spilaði tvo leiki í VISA bikarnum. Anton spilaði sinn fyrsta leik, líkt og Egill í VISA bikarkeppninni árið 2005, í 3:2 sigri á Njarðvík. Anton sem getur bæði leyst stöðu vinstri bakvarðar og vinstri kantmanns hefur alls leikið 47 leiki fyrir ÍBV og skorað í þeim þrjú mörk.