VISA bikarkeppnin er með breyttu sniði í ár og ÍBV hefur leik í keppninni í kvöld þegar ÍR-ingar koma í heimsókn á Hásteinsvöll. Leikurinn hefst kl 20:00. ÍR er sem stendur í efsta sæti 2.deildar. Hvað segir Heimir Hallgrímsson um leikinn?
Mér finnst þetta nýja fyrirkomulag í VISA bikarnum vera mun skemmtilegra. Leikurinn í dag er í 64 liða úrslitum. Þetta er jafnframt síðasta umferðin áður en úrvalsdeildarfélögin koma inn í keppnina. Fyrir utan að koma fyrr inn í keppnina geta úrvalsdeildarfélögin lent saman í öllum umferðum ólíkt því sem var áður þegar þau dróust sjálfkrafa gegn neðri deildar félögum.
Þessi mikla framför og nýbreytni sem skapar meiri möguleika fyrir neðri deildar félög að komast lengra í keppninni eins og annarstaðar í heiminum er Hjalta Kristjánssyni að þakka en hann barðist fyrir þessari breytingu í nokkur ár áður en hún var samþykkt á ársþingi KSÍ fyrir tveimur árum.
Mótherjar okkar í dag eru Reykjavíkurmeistararnir 2008 ÍR. Mikið uppbyggingarstarf er í gangi í Breiðholtinu bæði er aðstaða félagsins orðin stórglæsileg og innra starfið í fótboltanum með því besta sem gerist. Meistaraflokkar félagsins bæði í karla og kvennaknattspyrnu eru á mikilli uppleið.
Þjálfara meistaraflokks ÍR ættu Eyjamenn að kannast við en það er eðaldrengurinn Guðlaugur Baldursson sem þjálfaði meistaraflokk ÍBV árin 2005 og 2006.
Laugi hefur byrjað með látum hjá ÍR. Hann gerði liðið eins og áður sagði að Reykjavíkurmeisturum. Á þeirri leið sigraði ÍR úrvalsdeildarliðin Val, KR og Fjölni í riðlinum og svo Frammara í úrslitaleiknum. Næsta undirbúningsmót sigruðu ÍR-ingar sömuleiðis en þeir urðu Lengjubikarmeistarar í b-deild.
Þeir hafa svo byrjað Íslandsmótið með sömu sigurgöngu og unnið alla þrjá fyrstu leiki sína til þessa og eru sem stendur í fyrsta sæti 2.deildar (4 sigrar í 4 leikjum). Síðasti leikur ÍR var 5-1 sigur gegn Völsungi.
Það má því sjá á þessari upptalningu að leikurinn verður okkur Eyjamönnum erfiður og þrátt fyrir að andstæðingurinn leiki einni deild neðar en við hafa þeir nú þegar lagt bestu lið úrvalsdeildar að velli sem sýnir styrk þeirra.
Ég vona og ég trúi því að hvorki leikmenn né stuðningsmenn ÍBV sýni gestunum ekkert vanmat og skili sínu hlutverki þannig að við Eyjamenn getum verið stolltir í lok dags.
Bæði liðin hafa verið á sigurbraut en sigurganga annars liðsins endar á Hásteinsvelli í kvöld. Stöndum saman og sjáum öll til þess að ÍBV verði í pottinum á morgun þegar úrvalsdeildarliðin koma til sögu í 32-liða úrdráttinn.