Meistaraflokkur karla lék í kvöld útileik gegn Víkingum frá Ólafsvík. Veðrið var frekar kuldalegt vindur og rigning og leikurinn bar þess merki. Eyjamenn byrjuðu leikinn betur og sóttu meira undan vindinum án þess að skapa sér mörg marktækifæri. Víkingar vörðust vel reyndar eins og búast mátti við enda sterkt varnarlið sem hafði aðeins fengið 1 mark á sig til þessa á Íslandsmótinu. Það var því léttir fyrir ÍBV þegar Pétur Runólfsson skoraði fyrsta markið undir lok fyrri hálfleiks eftir fína fyrirgjöf frá Atla Heimissyni. Í seinni hálfleik snérist dæmið við og Víkingar voru meira með boltann án þess að skapa sér nein merkileg færi. Albert varði í tvígang góða skalla að marki eftir föst leikatriði Víkinga en Eyjamenn voru hinsvegar klaufar að nýta sér ekki nokkrar góðar skyndisóknir sem þeir fengu á móti vindinum. Það var svo í lok leiksins að Ingi Rafn Ingibergsson sem hafði komið inn á sem varamaður skoraði með langskoti. Ekki glæsilegasta mark sem sést hefur en það telur jafn mikið og hin.
Víkingar náðu að halda hraðanum niðri í leiknum og slakur dómari leiksins Valgeir Valgeirsson hjálpaði sömuleiðis mikið við það að leikurinn náði aldrei neinu flugi. Sífellt flautandi og þarf að lesa sig betur um hagnaðarregluna. En 2-0 sigur í fjórða leiknum í röð, nú á erfiðum útivelli. 12 stig í húsi og byrjunin lofar góðu en nú þarf liðið að undirbúa sig fyrir næsta leik sem er á þriðjudag í Visa Bikarnum heima gegn ÍR efsta liði 2.deildar. Því næst er heimaleikur gegn Fjarðarbyggð á föstudag. Það er því erfitt prógram sem bíður strákanna.
Þess má geta að eikmenn fóru með Herjólfi á fimmtudag og gistu í Reykjavík þá nótt. Síðan var keyrt á Snæfellsnesið um hádegi í dag og eftir leik þurfa strákarnir að gista á gistiheimili á Snæfellsnesi og komast ekki heim fyrr en um miðjan dag á laugardag. Það var því mikið fyrir þessum þremur stigum haft og eiga strákarnir hrós skilið að leggja þetta ferðalag á sig en þetta var ódýrasti mögulegi ferðamátinn fyrir félagið