Fótbolti - ÍBV leikur gegn Val til úrslita í Íslandsmótinu innanhúss (Futsal).

26.jan.2008  22:31
ÍBV sigraði Víking frá Ólafsvík í fjórðungsúrslitum í gær og Víði Garði í undanúrslitum í dag í æsispennandi leik.

Undanúrslitum karla og kvenna í Íslandsmótinu í innanhússknattspyrnu lauk í dag í Laugardalshöll. Valur og ÍBV leika til úrslita í karlaflokki kl 16:00 á morgun (sunnudag) í Laugardalshöll.

Undanúrslitin hjá körlunum voru æsispennandi. Í fyrri undanúrslitaleik dagsins mættust ÍBV og Víðir og þurfti framlengingu til þess að knýja fram úrslit. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 7-7 en í framlengingunni reyndust Eyjamenn sterkari og sigruðu 13-7. Leikurinn bauð upp á rafmagnaða spennu, 5 rauð spjöld, 10 vítaspyrnur, sérstaka dómara og fullt af umdeildum atriðum. Í seinni undanúrslitaleiknum sigraði Valur Vini frá Akureyri einnig eftir spennandi leik. Það verða því Íslandsmeistar Vals og ÍBV sem leika til úrslita á morgun í Laugardalshöll og hefst leikurinn kl. 16:00.

Strax eftir framlengdan Futsal leikinn keyrðu strákarnir í Reykjanesbæinn og léku æfingaleik við úrvalsdeildarlið Grindavíkur. Leikurinn tapaðist 5-2. Mörk ÍBV skoruðu Matt Garner og Arnór Eyvar Ólafsson.

Strákarnir hafa staðið í ströngu um helgina, fjórir leikir, Herjólfsferðir í vondum veðrum og ökuferðir um ófærar heiðar, en uppskera erfiðisins er möguleikinn á Íslandsmeistaratitli.