Fótbolti - STÓRLEIKUR Í LAUGARDALNUM Á MORGUN

21.sep.2007  15:25

- Páll Hjarðar spilar sinn 100. leik fyrir ÍBV

Á morgun dregur verulega til tíðinda í baráttu ÍBV á toppi 1. deildar er liði leikur gegn Þrótti Reykjavík á Valbjarnarvelli í Laugardal. Þá gæti endanlega ráðist hvort um raunverulegan möguleika sé að ræða hjá liðinu að komast í Landsbankadeildina aftur.

Strákarnir hafa verið að standa sig vel í undanförnum leikjum og unnu góðan sigur á Grindvíkingum, sem vermt hafa toppsætið í nær allt sumar. Það verður þó það skarð fyrir skyldi í liði ÍBV að þeir Atli Heimisson og Yngvi Borgþórsson verða í leikbanni. Möguleikar ÍBV felast nær eingöngu í sigri í leiknum og að Fjölnir tapi stigum á heimavelli gegn Þór frá Akureyri á sama tíma. Sendum við Þórsurum að sjálfsögðu baráttukveðjur.

Páll Þorvaldur Hjarðar mun leika sinn 100. leik með liði ÍBV á morgun og vonandi verður sá leikur eftirminnilegur fyrir jákvæðar sakir. Óskum við Páli innilega til hamingju með áfangann. Af þesssu tilefni birtum við mynd af kappanum í góðum félagsskap þeirra Jonah og Chris.

Eru allir stuðningsmenn ÍBV og allir sem vettlingi geta valdið, beðnir um að koma og styðja ÍBV á Valbjarnarvelli á morgun kl. 13:30 þar sem ÍBV mun einnig birtast í búningum sem ekki hafa sést áður. Sjón er sögu ríkari.

Áfram ÍBV !