Gestur Magnússon skrifar:
Lið ÍBV: Henrik- Arnór, Andri (Yngvi), Palli, Matt- Jeffsy (Anton), Pétur, Bjarni H., - Ingi (Stefán), Gústi, Atli
Leikurinn fór frekar rólega af stað, mest barátta á miðjunni, en heldur meira spil hjá okkar lið á meðan Njarðvík var með kýlingar fram á völlinn. Það var ekki fyrr en á 12 mín. þegar að fyrsta færið kom, Jeffsy slapp í gegn eftir sendingu frá Atla og kláraði vel og við komnir 0-1 yfir. Eftir markið gerðist ekki mikið, mikil barátta en án þess að leikurinn væri grófur. Það var ekki fyrr en á 43. mín að annað færi leit dagsins ljós þegar Gústi slapp í gegn eftir góða sendingu frá Jeffsy en Gústi ákvað að gefa boltann á fjær stöng, í staðinn fyrir að láta vaða, þarna vantaði alla eigingirni í hann, þar sem að sendingin var of föst og ekkert varð úr sókninni. Staðan 0-1 í hálfleik var sanngjörn.
Fljótlega kom í ljós í seinni hálfleiknum hvort liðið væri sterkara við tókum öll völd á vellinum og bara tímaspursmál hvenær annað markið kæmi. Á 54. mín fékk Andri góða sendingu upp í vinstra hornið og sendi fastan bolta fyrir markið þar sem að Atli rétt missti af honum en Ingi lá á fjærstönginni og þurfti ekki annað en að leggja boltann yfir línuna og staðan orðinn 0-2. Hættulegasta færi Njarðvikur kom á 59. mín þegar sending kom in í teiginn og Bjarni Hólm ætlaði að skalla í horn og setti boltann rétt framhjá stönginni.
Aðdragandinn að þriðja markinu á 79. mín. var einstaklega flottur, þar sem að Garner tekur aukaspyrnu vinstra megin við teiginn og allir búast við sendingu en hann tekur flottann þríhyrning við Gústa og kemst upp að endalínu og sendir góða sendingu á fjær stöng þar sem að Andri kemur á ferðinni og hamrar boltann í netið, 0-3.
Á 83. mín kemst Atli í gegn og virtist vera tekin niður af markverði Njarðvíkur en engin víti dæmd, kom þetta afskiptaleysi dómarans ekki á óvart þar sem að leikmenn Njarðvíkur voru farnir að komast upp með ótrúleg brot án þess að fá spjöld.
Njarðvík minnkaði muninn á 90. mín. þar sem að Bjarni Hólm ætlaði að láta boltann fara fram hjá á fjærstöng en annar tveggja eyjamanna (Alfreð E. Jóhannsson) í Njarðvíkur liðinu skallaði auðveldlega í markið af stuttu færi, Njarðvík fékk annað færi mínútu seinna þegar þeir áttu skot í stöng, en lokastaðan 1-3 og voru það sanngjörn úrslit.
Heilt yfir var liðið að spila ágætalega og unnu vel saman sem heilsteypt lið, fyrst og fremst var þetta vinnusigur gegn lakara liði.
Gaman hefði verið að sjá fleiri eyjamenn á vellinum, það fór reyndar ekki mikið fyrir Njarðvíkingum í stúkunni en ég hvet stuðningsmenn til að mæta á síðasta útileik ÍBV 22. sept gegn Þrótti í Laugardalnum, ef við látum ekki sjá okkur á vellinum þá getum við varla verið með sterkar skoðanir á spilamennsku liðsins á spjallinu, enn er von.