Fótbolti - Nýr leikmaður: Henrik Bødker

03.sep.2007  21:57
Fyrir nokkrum vikum síðan gekk í raðir ÍBV nýr leikmaður, Henrik Bødker að nafni og þarf vart að taka fram að hann er danskur. Henrik var fenginn hingað til að leysa Hrafn Davíðsson að hólmi en hann hélt út til Bandaríkjanna í nám líkt og á síðustu leiktíð. Ætlunin var að kynna þennan nýja leikmann okkar á síðunni mikið fyrr en það dróst því miður. Við spjölluðum aðeins við Henrik og látum síðan hina hefðbundnu leikmannakynningu einnig fljóta með að neðan.

Henrik er 26 ára gamall og kemur frá Árósum á Jótlandi. Hann hefur búið síðustu fimm ár í Kaupmannahöfn þar sem hann hefur spilað með liði Fremad Amager sem nú leikur í dönsku annarri deildinni, tveimur deildum neðar en efsta deildin, SAS-Ligaen. Henrik hefur einnig leikið með AGF, FC Aarhus, Lyngby og nú síðast ÍBV. Hann hefur löngum þótt efnilegur á milli stanganna og á að baki um 35 landsleiki með yngri landsliðum Dana. Hann hefur sýnt góð tilþrif á milli stanganna hjá liði ÍBV það sem af er og greinilegt að þarna er á ferðinni öflugur markvörður.

Heyrt góða hluti um Ísland
En hvers vegna ætli Henrik hafi ákveðið að koma til Íslands að spila fótbolta?
,,Ég hef alltaf viljað prufa að spila fótbolta utan Danmerkur og svo hafði ég heyrt marga góða hluti um landið m.a. frá Allan Borgvardt og Dennis Siim. Ég fékk samningstilboð frá tveimur dönskum liðum en ég sagði við þau að ef möguleikinn til að fara til Íslands að spila væri fyrir hendi þá myndi ég frekar fara þangað, sem ég og gerði."

Þarf að venjast íslenska boltanum
Henrik segir íslenska boltann aðeins öðruvísi en þann danska. ,,Ég hef auðvitað ekki verið mjög lengi svo að það er kannski erfitt að dæma mikið um það núna. Þó sé ég alveg smá mun, hérna er spilaður mikið meiri kraftabolti og meiri barátta en taktíska spilið er að sama skapi minna en í Danmörku. Þetta er eitthvað sem maður þarf að venja sig við."

Ótrúlega flott landslagið hérna
Aðspurður um hvað honum finnist um þessa litlu eyju sem hann er allt í einu kominn á segir hann að þetta sé að koma sér allt saman skemmtilega á óvart. ,,Ég viðurkenni alveg að ég var aðeins efins um þetta en samt mjög spenntur. Ég hef allt mitt líf búið í tiltölulega stórum borgum og hef aldrei verið neinn náttúrumaður heldur. En það er virkilega fallegt umhverfið hérna og ég er sífellt að hringja heim í vini mína og segja þeim hvað þetta er flott allt saman. Fólkið hérna í Vestmannaeyjum er einnig ótrúlega opið og vinalegt og hefur tekið vel á móti mér. Í hvert skipti sem ég keyri um hérna þá sit ég bara og stari út um gluggann. Landslagið er svo ótrúlega flott. Í Danmörku er allt bara flatt eins og pönnukaka. En ég er hins vegar ekki eins ánægður með veðrið og verðlagið hérna hjá ykkur," segir hann.

Á mín bestu ár eftir
Samningur Henriks við ÍBV gildir til loka tímabilsins. Hann segist vel geta hugsað sér að vera áfram á Íslandi. ,,Ég trúi því að ég geti bætt mig sem markvörður hérna því að maður lærir að spila í nýju landi og á aðeins öðruvísi hátt en maður er vanur og það hjálpar bara. Þótt ég sé orðinn 26 ára þá er það ekki hár haldur fyrir markmann og ég er sannfærður um að mín bestu ár sem markmaður séu eftir," segir þessi hressi Dani að lokum.


Leikmannakynning
Nafn? Henrik Bødker
Aldur? 26
Fæðingarstaður? Karup í Danmörku
Fjölskylda? Á lausu...
Uppáhaldslið? Blackburn Rovers, Real Madrid, AGF
Uppáhaldsíþróttamaður? Diego Maradona
Áhugamál? Vinirnir, bíómyndir og bara að hafa gaman
Besti matur? Steikt beikon með persillusósu og pasta
Versti matur? Fiskur (afsakið)
Uppáhaldsdrykkur? Pepsi Max
Kanntu að elda? Neibb, aðeins svo ég geti lifað af
Hvað eldaru oftast? Pasta
Uppáhaldskvikmynd? Trainspotting og Walk The Line
Uppáhaldssjónvarpsþættir? Hvað sem er
Uppáhaldshljómsveit? Elvis Presley, Johnny Cash, Bítlarnir og Roy Orbison
Uppáhaldsvefsíða? bold.dk, danska útgáfan af fotbolti.net
Skrýtnastur í liðinu? Andri eða Andy
Fallegastur í liðinu? Andri, Atli eða Pétur
Erfiðastur að eiga við á æfingum, af hverju? Veðrið!
Besti samherjinn? Allir góðir, kannski Atli, Pétur eða Jeffsie
Ef þú værir fastur á eyðieyju og þyrftir að velja tvo leikmenn úr liðinu til að vera með þér, hverjir væru það og af hverju myndiru velja þá? Tóta til að vera þjónn og Andy til að skemmta mér
Hver er mesti höstlerinn í liðinu? Garner á hans framandi hátt
Ljóshærðar eða dökkhærðar? Ljóshærðar en er samt ekki einhver krafa
Frægastur í gemsanum þínum? Michael Gravgaard eða Matt Garner
Í hvernig skóm spilaru? Adidas Predator
Skemmtileg saga úr boltanum? Að spila á móti Man United og drekka síðan bjór með þeim eftir leikinn, með Beckham, Keane og félögum.
Eitthvað að lokum? Kærar þakkir fyrir móttökurnar sem ég hef fengið, bæði frá fólki í félaginu og eins frá Eyjamönnum almennt.