Fótbolti - 1 deild: Ólafsvíkingar mæta til Eyja í kvöld

31.ágú.2007  09:57
Í kvöld eru fjórir leikir í 18. umferð 1. deildar karla og mæta Eyjamenn Víkingi frá Ólafsvík á Hásteinsvelli. Helstu keppinautar ÍBV um þriðja sætið, Fjölnir, þjófstörtuðu þó þessari umferð í gær með því að leggja Njarðvík að velli 2-0. Það gerir þá stöðu ÍBV ennþá erfiðari en nú á Fjölnir einungis fjóra leiki eftir og verður að tapa þremur af þeim, og ÍBV að vinna alla sína. Auk þess þarf Fjarðabyggð að tapa a.m.k. tveimur stigum í þessum síðustu umferðum.

Lið ÍBV og Víkings Ó. mættust fyrr í sumar á heimavelli Víkings og sigruðu Eyjamenn þar 0-1 með marki Yngva Borgþórssonar úr víti þegar skammt var eftir leiks. Eyjamenn spiluðu ekki vel þar en náðu engu að síður að landa glæsilegum sigri. Það er oft sagt að það séu góð lið sem vinni leiki þar sem spilamennskan er léleg og gæti það alveg átt við um Eyjaliðið. En liðið hefur þó ekki náð að fylgja eftir góðum útivallarúrslium á heimavelli og er það í raun óráðin gáta hvers vegna svo er.

Víkingsmenn byrjuðu mótið ekki glæsilega og allt leit út fyrir að þeir myndu vera eitt þeirra liða sem berjast myndu um að forðast neðsta sætið og því fall. En eftir tapið gegn ÍBV í fyrri umferðinni rifu þeir sig heldur betur upp og lögðu m.a. Stjörnuna á útivelli, Fjarðabyggð á heimavelli 3-0, KA á heimavelli 6-0 auk fleiri góðra úrslita. En í síðustu þremur leikjum hefur liðið mætt toppliðunum og þrátt fyrir að Víkingsmenn hafi veitt mikla mótspyrnu urðu þeir að lúta í grasi í öllum þremur leikjunum. Þeir eru því enn í þónokkurri fallhættu en þeir sitja í 8. sæti með 16 stig, ásamt Stjörnunni, Þór og Njarðvík. Fyrir neðan þessi lið eru svo Leiknir og KA með 15 stig og á botninum situr Reynir Sandgerði með 12 stig.

Hvernig sem allt fer þá eru Eyjapeyjar staðráðnir í því að gera sitt besta áfram og klára mótið með reisn. Þeir eiga það inni hjá Vestmannaeyingum og öðrum stuðningsmönnum liðsins að þeir klári einnig mótið með reisn og styðji strákana til síðustu mínútu mótsins. Leikurinn hefst kl 18:30 í kvöld á Hásteinsvelli og flautukonsertnum verður stjórnað af Hans Kristjáni Scheving. Áfram ÍBV!