Fótbolti - Andri Ólafs: Stefnum ennþá á sæti í efstu deild
24.ágú.2007 11:50
Andri Ólafsson, miðjumaður ÍBV og einn lykilmanna liðsins síðustu tímabil hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit á leiktíðinni. Andri er enda búinn að vera meiddur meira og minna í allt sumar og síðasta vetur einnig. Fyrst var bakið að hrjá strákinn, síðan nárinn og nú síðast hnéð. Hann fór í speglun um daginn á hnénu sem reddaði því a.m.k. tímabundið en nárinn er enn að angra drenginn og þarf hann í aðgerð til að vinna bót á þeim meiðslum. Eins og lesa má hefur hann verið hrikalega óheppinn á þessu ári með meiðsli og er vonandi að hann nái að rífa sig úr þessu enda eru fáir miðjumenn á Íslandi sem standast Andra snúning þegar hann er heill og í góðu formi.
Andri sagði í samtali við ibv.is að tímabilið væri búið að vera hrein hörmung fyrir sig. ,,Maður er búinn að vera mikið meiddur og þetta er búið að vera mjög leiðinlegt fyrir mig. Einnig er mjög leiðinlegt að geta ekki hjálpað liðinu meira en ég hef gert, enda átti ég að gegna aðeins meira hlutverki í þessu liði en ég hef gert á tímabilinu. Nárinn er áfram að plaga mig og það er ekkert að lagast."
Hann sagði liðið auðvitað mjög vonsvikið eftir tapleikinn gegn Leikni en engu að síður sé góður mórall í hópnum og að menn séu staðráðnir í að klára mótið með stæl. ,,Úrslitin gegn Leikni voru auðvitað hrikaleg og óskiljanlegt að spila svona og það á heimavelli. Við höfum spjallað vel saman liðið eftir leikinn og farið í gegnum hvað má betur fara. Það sem hefur skemmt mest fyrir liðinu í sumar er að við virðumst bara panika í leikjunum ef við höfum ekki skorað mark snemma. Þá er eins og liðið ætli sér að skora tíu mörk í leiknum og allt fer í steik. Einnig er auðvitað slæmt að lykilmenn hafa verið í meiðslum og þeir hafa heldur ekki stigið upp í þessum leikjum sem liðið hefur mest þurft á því að halda."
Andra líst vel á leikinn gegn KA í kvöld og segir liðið ekkert vera búið að gefast upp. ,,Meðan það er enn möguleiki þá er möguleiki. Heimir er búinn að taka vel á okkur eftir Leiknisleikinn og við ætlum að koma mjög ákveðnir í þennan leik og klára bara alla leikina sem við eigum eftir, svo sjáum við bara til hvar við endum. Það er ekkert launungarmál að við ætluðum okkur mun stærri hluti í sumar, stefndum á að sigra deildina en svo þurftum við að setja okkur ný markmið sem voru að enda í efstu þremur sætunum og það markmið er ennþá í gangi."