Fótbolti - 1 deild: Eyjamenn mæta KA mönnum í kvöld á Akureyri
24.ágú.2007 11:30
Eyjamenn halda í dag norður yfir heiðar í annað skiptið í sumar. Fyrri ferðin var góð, öruggur sigur á Þórsurum 0-2. ÍBV liðið á mjög takmarkaða möguleika að komast upp í efstu deild eftir tap í síðustu umferð gegn Leikni. Strákarnir sitja enn sem fyrr í 5. sæti deildarinnar með 26 stig og eru sjö stigum frá þriðja sætinu sem Fjölnir virðist hafa eignað sér endanlega með sigrinum á KA í síðustu umferð. Strákarnir eru þó ekkert á því að gefast upp enda eru Eyjamenn þekktir fyrir allt annað en að leggja árar í bát áður en komið er að landi. Stuðningsmenn liðsins eru einnig hvattir til að hafa þetta í huga, það verður ekkert gefist upp þegar enn er möguleiki. Strákarnir verða að einbeita sér að sínum leikjum sem eftir eru og síðan kemur framhaldið bara í ljós.
Strákarnir fljúga beint á Akureyri núna rétt eftir hádegi. Alger blíða er í Eyjum og því verður pottþétt flug. Góður mórall er í hópnum sem fyrr og það heyrist á strákunum að þeir ætla að leggja sig alla fram í leikina sem eftir eru og klára mótið með reisn.
Páll Hjarðar og Pétur Run eru í banni í kvöld og svo eru Jonah og Anton meiddir og verða ekki með í kvöld. Leikurinn hefst 18:30 á Akureyrarvelli í kvöld og Eyjamenn á Norðurlandi eru hvattir til að mæta og styðja strákana.