Fótbolti - 3. flokkur kvenna: Úrslitakeppnin í Eyjum
21.ágú.2007 10:03
ÍBV Íþróttafélag sótti fyrir nokkru síðan um að halda úrslitakeppni 3. flokks kvenna í 7 manna bolta. ÍBV hefur oft sótt um að halda úrslitakeppnir yngri flokka en nær ávallt verið hafnað. Félagið hélt síðast úrslitakeppni á fyrri hluta níunda áratug síðustu aldar og fannst komið tími til að KSÍ opnaði augu sín gagnvart Vestmannaeyjum. Þeim fannst það greinilega líka því þeir samþykktu umsóknina.
Hingað koma fimm lið og verða því sex lið með ÍBV að berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Úrslitakeppnin hefst á laugardaginn kl 13:00 með leik ÍBV og Sindra frá Hornafirði. Þann sama dag verða fimm leikir á dagskrá og sami leikjafjöldi verður spilaður á sunnudeginum, fyrir utan úrslitaleikina.
Eyjastelpur eiga góðan séns á titlinum ef þær spila eins og þær hafa gert í sumar og verður þetta eflaust skemmtileg og spennandi úrslitakeppni. Eyjamenn eru hvattir til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar áfram í átt að Íslandsmeistaratitlinum.