Fótbolti - 1 deild: Vonbrigði, vonbrigði, vonbrigði
18.ágú.2007 19:21
Eyjamenn gerðu líklegast endanlega út um þann draum að komast aftur í efstu deild í gærkvöldi. Liðið tapaði þá fyrir Leiknismönnum á heimavelli, 1-2. Fyrri hálfleikurinn var mjög góður hjá strákunum og sköpuðu þeir sér fullt af færum. Sem fyrr náði liðið ekki að klára leikinn en það hefur einkennt liðið á heimavelli í sumar að vera mun betri aðilinn en ná ekki að reka endahnútinn á verkið.
Bjarni Rúnar skoraði gott mark á 31. mínútu eftir góða sókn en Leiknismenn jöfnuðu metin á 45. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir hræðilegan klaufagang hjá Andy sem braut af sér. Sem dæmi um yfirburði ÍBV í fyrri hálfleik, þá var þetta eina skot Leiknis á markið í hálfleiknum. Auk þess fengu þeir eina hornspyrnu og eitt annað skot sem fór tíu metra framhjá. Eyjamenn voru með boltann líklegast 80% í fyrri hálfleik og leikurinn fór nánast fram á vallarhelmingi Leiknis. Eyjapeyjar fengu fjölmörg færi til að gera út um leikinn í fyrri hálfleik, en hvert dauðafærið á fætur öðru fór forgörðum.
Síðari hálfleikur var vægast sagt hræðilegur og liggur við að segja að hann hafi verið liðinu til skammar. Hvað gerðist í hálfleik hjá leikmönnum er óráðin gáta, það mætti hreinlega allt annað ÍBV lið til leiks í seinni hálfleik. Liðið sem hafði gjörsamlega yfirspilað andstæðinga sína í fyrri hálfleik, mætti allt í einu skíthrætt í seinni hálfleikinn og þorði ekki að spila boltanum. Í heilar 45 mínútur þá spilaði liðið boltanum til baka á varnarmennina sem gerðu ekki annað en að þruma háum boltum fram á Atla, Nsumba og Jeffsie, sem eru líklegast með minnstu mönnum í deildinni. Leiknismennirnir áttu að sjálfsögðu í engum vandræðum með þetta og skölluðu hvern boltann á fætur öðrum fram, og seinni boltana hirtu þeir svo nánast alla með tölu. Alveg hreint óskiljanleg taktík sem entist út allan seinni hálfleikinn. Það er ekki nema von að menn spyrji hvers vegna Heimir þjálfari greip ekki í taumana fyrr og hreinlega bannaði mönnum að þruma háum boltum fram. Leiknismenn gengu auðvitað á lagið gegn þessarri óskiljanlegu spilamennsku og fengu hvert færið á fætur öðru. Fór svo að þeir fengu aðra vítaspyrnu fjórum mínútum fyrir leikslok en Yngvi braut þá klaufalega af sér. Lokastaðan 1-2.
Úrvalsdeildarsætið er líklegast fokið út um gluggann eftir þessi úrslit í gær. Ekki svo að skilja að leikurinn í gær hafi gert útslagið, liðið er búið að vera að tapa niður þessum séns hægt og sígandi í sumar með hverjum töpuðum stigunum á heimavelli. Nú er svo komið að liðið hefur leikið átta heimaleiki í deildinni. Sigrarnir í þessum leikjum eru tveir, jafnteflin fjögur og töpin tvö. Því hefur liðið tapað 14 stigum á heimavelli og er það að koma liðinu í koll í sumar, því útivallarárangurinn hefur verið prýðisgóður, 16 stig fengin þar af 24 mögulegum.
Þar sem Fjölnir sigraði leikinn sinn í dag gegn KA er staðan þannig að Fjölnir þarf að tapa a.m.k. þremur af síðustu sex leikjum sínum og Eyjamenn að vinna alla sína sex leiki. Það verður því að teljast mjög óraunhæft að liðið fari upp, ekki nema hreint kraftaverk eigi sér stað í síðustu umferðunum.
Vonbrigðin eru gríðarleg og varla hægt að lýsa þeim með orðum. Mannskapur ÍBV liðsins kemur því klárlega í hóp tveggja, þriggja bestu liðanna í deildinni en einhvern veginn hefur liðið ekki smollið nógu vel saman. Það þýðir þó ekkert að leggja árar í bát, það eru sex leikir eftir og það er hreinlega krafa stuðningsmanna og allra þeirra sem koma að liðinu, að strákarnir sýni úr hverju þeir eru gerðir í þessum síðustu leikjum. Kraftaverkin hafa gerst áður og munu gerast, kannski kemur eitt í okkar hlut í ár.