Fótbolti - 3. flokkur kvenna: Töpuðu fyrir KR
17.ágú.2007 09:19
Stelpurnar í 3. flokki biðu lægri hlut fyrir KR-ingum í gær í undanúrslitum bikarsins, 0-1. Spilaður var 11 manna bolti og til þess að ná í lið þurftu nokkrar stelpur úr 4. flokki að spila með, líkt og í fyrri bikarleikjum í sumar. Þrátt fyrir það stóðu stelpurnar sig mjög vel í leiknum og voru óheppnar að skora ekki.
Fyrri hálfleikur var mjög góður hjá liðinu. Þær náðu upp mjög góðu spili og voru KR stelpur í miklum vandræðum á köflum. KR stelpur komust þó yfir á 19. mínútu en Eyjastelpur gáfu þeim ekkert eftir út fyrri hálfleikinn. Þegar uþb fimm mínútur voru til hálfleiks þá fékk Fjóla Sif Ríkharðsdóttir besta færi ÍBV í leiknum og það líka sannkallað dauðafæri. Hún sýndi stórglæsilega takta, lék á þrjár KR stelpur og var allt í einu komin ein á móti markmanni. En vinstri fóturinn var eitthvað að stríða Fjólu að þessu sinni og hún hitti boltann ekki nógu vel, sem endaði svo framhjá.
Síðari hálfleikur var ekki eins góður hjá stelpunum. Þær hættu að spila saman og mikið var um feilsendingar. Það sást líka vel þegar leið á leikinn hversu KR stelpurnar voru líkamlega sterkari og stærri og þær nýttu sér það vel í seinni hálfleiknum. KR-ingarnir fengu nokkur ágæt færi til að bæta við mörkum en Auður í markinu sá til þess að svo fór ekki. Lokastaðan því 0-1 fyrir KR og þær fara því í úrslitaleikinn í bikarnum. Svekkjandi fyrir stelpurnar en þær geta engu að síður verið stoltar eftir frammistöðuna í gær.