Fótbolti - 3 flokkur kvenna: Mæta KR-ingum í kvöld í undanúrslitum bikarsins

16.ágú.2007  14:42
Líkt og 2. flokkur karla, hefur 3. flokkur kvenna nú komist í undanúrslit í bikarnum. Stelpurnar hafa í allt sumar leikið í 7 manna bolta enda ekki mannskapur verið til fyrir ellefu manna bolta. Það má segja að þeim hafi gengið mjög vel og eru eiginlega að rústa riðlinum. Þær hafa unnið alla sjö leiki sína í sumar og eru með sex stiga forskot. Þær hafa skorað 69 mörk og fengið á sig 12 sem þýðir 57 mörk í plús. Frábær árangur hjá stelpunum og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni í 11 manna bolta.

Bikarkeppnin hefur þrátt fyrir þetta verið leikin á stórum velli í sumar og hafa stelpurnar þurft smá hjálp frá stelpum úr 4. flokki félagsins til að það væri mögulegt. Sama verður uppá teningnum í kvöld er KR stelpur mæta til Eyja og leika við heimastelpur, leikinn verður 11 manna bolti. Leikurinn hefst kl 18:00 og verður á Týsvellinum.

Allir Eyjamenn eru hvattir til að mæta og styðja stelpurnar áfram í úrslitaleikinn. ÁFRAM ÍBV!