Fótbolti - 2 flokkur karla: Undanúrslit í bikarnum á morgun

13.ágú.2007  17:18
2. flokkur karla er kominn alla leið í undanúrslit í VISA bikarnum. Þeir lögðu Skagamenn að velli uppá Skipaskaga eftir hörkuspennandi leik. Eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var staðan 1-1 svo grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. Í vítakeppninni skoruðu Arnór og Eiður en Þórarinn Ingi og Gaui Ólafs brenndu af. Fannar varði síðan tvö víti Skagamanna og tvö víti þeirra fóru framhjá þannig að Eyjapeyjar sigruðu vítakeppnina örugglega.

Á morgun ferðast strákarnir svo til Akureyrar en andstæðingarnir í undanúrslitunum eru Þórsarar. Nær allir leikmenn eru heilir en Elvar Aron, Gauti, Kiddi og Ingólfur eiga þó allir við smávægileg meiðsli að stríða en eru samt leikfærir. Jón Óli þjálfari strákanna hlakkar mjög til leiksins og líst vel á hann. ,,Þetta verður hörkuleikur. Þeir eru með mjög gott sóknarlið og hafa skorað flest mörkin í sínum riðli. Veikleikinn þeirra liggur í varnarleiknum og markvörslunni svo við munum verjast vel og sækja hratt. Strákarnir eru mjög vel stemmdir fyrir leikinn og eru hungraðir í að fara alla leið. Frammistaða okkar í deildinni hefur valdið okkur vonbrigðum og þá er það bara bikarinn eftir." Jón Óli sagði einnig að í fyrsta skipti í sumar hafi verið erfitt að velja í lið og hóp vegna þess að allir væru tilbúnir í leikinn en það væri um leið skemmtilega leiðinlegt.

2. flokkur karla ÍBV sigraði í bikarkeppni síðast árið 1972 þegar það lið varð bæði Íslands- og bikarmeistarar. Síðast þegar þessi flokkur komst í úrslit í bikarnum var árið 1992 og voru þá menn eins og Hermann Hreiðarsson, Kristján Georgsson og fleiri kappar í liðinu. Kristján, eða Kiddi Gogga eins og hann er yfirleitt kallaður, sagði þetta hafa verið skemmtilegan leik. ,,Þetta var gegn Skagamönnum og þeir voru með ótrúlega gott lið. Kári Steinn Reynis, Pálmi og Sturlaugur Haraldssynir, Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir, Þórður Guðjóns, Gulli Jóns, Hjörtur Hjartar, Árni Gautur í markinu ásamt fleiri stórum nöfnum voru í þessu liði. Við vorum reyndar með mjög gott lið líka en áttum ekki möguleika í þá. Staðan var reyndar 0-0 í hálfleik en við töpuðum 2-0. Það hefði verið ljúft að komast í úrslitaleikinn og ég vona svo sannarlega að strákarnir nái því á morgun," sagði Kiddi.

Leikurinn fer fram á Þórsvelli á morgun kl 18:00 og eru Eyjamenn á Akureyri og nágrenni hvattir til að kíkja á strákana. ÁFRAM ÍBV!

Mynd m. frétt fengin af 2fl.eyjar.is