Fótbolti - 1 deild: Glæsilegur sigur á Stjörnunni!

10.ágú.2007  21:24
Strákarnir sigruðu Stjörnumenn í kvöld í sannkölluðum markaleik. Mörkin létu þó lengi á sér kræla en þegar um hálftími var til leiksloka þá brast stíflan og hvert markið á fætur öðru leit dagsins ljós. Stjörnumenn komust þá yfir með marki úr vítaspyrnu á 59. mínútu en síðan hófst líklegast einhver ótrúlegasti kafli í sögu íslensks knattspyrnuleiks. Jeffsie jafnaði metin á 63. mínútu, Stjarnan komst aftur yfir á 64. mínútu en Atli Heimis jafnaði aftur fyrir Eyjamenn og það á 65. mínútu! Fjögur mörk á sex mínútum og þrjú á þremur mínútum! Það hlýtur að vera Íslandsmet ef ekki heimsmet.

Það var Jeffsie sem skoraði sitt annað mark í leiknum og kom Eyjamönnum yfir á 77. mínútu. Það fór svo vel á því að leikmaðurinn sem var í leikmannakynningu hér á síðunni í dag, Arnór Eyvar Ólafsson, skoraði fjórða og síðasta mark leiksins og úrslitin því 2-4 okkar mönnum í vil. Ekki oft sem Arnór skorar og menn segja líklegast núna með hann eins og þegar Gary Neville skorar: ,,hann af öllum mönnum!" En frábært hjá drengnum og strákunum öllum sem sýndu með þessum úrslitum að þeir eru síður en svo hættir í baráttunni um sæti í efstu deild.

Eyjapeyjar komust með þessu uppí fjórða sæti deildarinnar með 26 stig, aðeins einu stigi á eftir Fjölni sem sigraði Leikni á útivelli í kvöld 0-2. Fjölnir er því með 27 stig en á þó leik til góða. Meiri umfjöllun um leikinn kemur á morgun þegar Gestur Magnússon, okkar maður á útivöllum, skilar af sér skýrslu sinni um leikinn.

Til hamingju með glæsilegan sigur strákar !