Fótbolti - Fyrsti leikur eftir Þjóðhátíð: Stjarnan-ÍBV á morgun

09.ágú.2007  10:22
Fyrsti leikur eftir Þjóðhátíð verður á morgun er lið ÍBV heimsækir Stjörnumenn í Garðabæinn. Lið ÍBV situr sem fyrr í 5. sæti deildarinnar, er nú með 23 stig. Stjarnan er einu sæti neðar með 16 stig og hafa forráðamenn liðsins líklegast gert ráð fyrir betra gengi í sumar en raun ber vitni.

Í síðustu þremur leikjum hefur Eyjaliðið náð ágætis úrslitum og fengið sjö stig samtals með markatölunni 8-0. Jafnteflisleikurinn gegn Fjarðabyggð voru þó mikil vonbrigði enda liðið komið á ágætis skrið aftur. Yfirburðirnir gegn Austfirðingum voru miklir en lið þeirra pakkaði í vörn og ekki tókst að brjóta þann múr á bak aftur.

Lið Stjörnunnar er í skrýtinni stöðu, nú þegar rúmlega helmingur mótsins er að baki. Liðið er nánast búið að missa af tækifærinu um að komast upp enda eru 11 stig í þriðja sætið. Mjög stutt er í botnbaráttuna hjá liðinu en einungis þrjú stig eru í fjórða neðsta sætið. En þar sem einungis eitt lið fellur úr deildinni, líkt og í efstu deild, þá eru sáralitlar líkur á að Stjarnan falli. Því má eiginlega segja að Stjörnumenn séu úr leik, bæði í toppi og botni þrátt fyrir að aldrei sé hægt að segja svo með fullri vissu þegar þó þetta mikið er eftir.

Þjóðhátíðin í ár tókst hreint frábærlega og fer í sögubækurnar sem ein sú besta, bæði í því hvernig til tókst og eins í fjölda gesta. ÍBV liðið ætlar nú að fylgja eftir þessum glæsilegu Þjóðhátíðarúrslitum ÍBV-Íþróttafélags með sigri á morgun sem er alger nauðsyn ætli liðið sér að fara upp um deild. Ef sigur næst ekki á morgun og liðin fyrir ofan vinna sína leiki þá gæti liðið verið komið sex til sjö stigum á eftir Fjölni í þriðja sætinu og einungis sjö leikir eftir. Og síðustu þrír leikirnir í mótinu verða ekki beint auðveldir en mótherjarnir í þeim eru þrjú efstu liðin í dag: Grindavík, Þróttur og Fjölnir. Það er því mikil pressa á strákunum á morgun að ná góðum úrslitum en ekki síður á stuðningsmönnum liðsins. Allir sem einn er slagorð morgundagsins, sýnum nú úr hverju við erum gerðir og náum upp sömu stemningu og náðst hefur í nokkrum leikjum í sumar, m.a. gegn Grindavík og fleiri leikjum. Leikurinn hefst kl 19:00.

ÁFRAM ÍBV !