Fótbolti - 1 deild: Fjórða jafnteflið á Hásteinsvelli í sumar
31.júl.2007 22:10
Lið Fjarðabyggðar mætti í fyrsta sinn á Hásteinsvöll í kvöld. Veðrið var hálf napurt í kvöld, norðaustan strekkingsvindur sem jókst þegar leið á leikinn. Eyjamenn tóku í raun öll völd á vellinum strax í byrjun og héldu boltanum nánast allan fyrri hálfleikinn. Eftir rúmlega tíu mínútna leik átti Jeffsie frábæra sendingu inn fyrir á Inga Rafn sem komst í gott skotfæri en skot hans var lélegt og beint á markmann Fjarðarbyggðar. Nokkrum mínútum síðar fengu Fjarðabyggð reyndar frábært skallafæri, þar sem einn leikmaður þeirra var algerlega ódekkaður inní teig, en sem betur fer fór skallinn framhjá.
Eftir rúmlega 25 mínútna leik fékk Andy gott skallafæri en skallaði rétt yfir. Fjórum mínútum síðar gerðist svo fyrsta umdeilda atvikið í leiknum. Þá kom fyrirgjöf og Andy var að gera sig líklegan að skalla boltann þegar honum var greinilega hrint svo hann steinlá. Mjög svo slakur dómari leiksins, Jóhannes Valgeirsson, dæmdi ekki vítaspyrnu og það hlýtur að hafa verið vegna þess að hann þorði því ekki, því allir á vellinum sáu þessa augljósu hrindingu. Fátt markvert gerðist eftir þetta í fyrri hálfleik. Palli átti einn skalla framhjá úr góðu færi og Fjarðabyggð átti eitt skot framhjá. Annars var lið ÍBV örugglega 70-80% með boltann í fyrri hálfleik en strákarnir náðu ekki að gera sér mat úr því.
Heimir setti Bjarna Hólm fram strax í byrjun seinni hálfleiks en sú breyting skilaði sér engan veginn. Eflaust hefði Heimir aldrei átt að gera þessa breytingu eða a.m.k bíða með hana þangað til aðeins seinna í hálfleiknum. Sérstaklega ef tekið er mið af því að í síðari hálfleik spilaði Eyjaliðið með vindinn í bakið og hefði eflaust komið betur út að hafa hraðari leikmann í framherjastöðunni.
Síðari hálfleikur var í stuttu máli sagt hundleiðinlegur á að horfa. Eyjapeyjar sköpuðu þó einu færin sem komu í hálfleiknum en Jeffsie fékk tvö góð færi, á 69. og 90. mín en inn vildi boltinn ekki. Á 78. mín gerðist annað mjög umdeilt atvik. Nsumba (Gústi) fékk þá stungusendingu inn fyrir vörn Fjarðabyggðar og var við að sleppa í gegn þegar hann virtist vera felldur. Í staðinn fyrir víti þá spjaldaði Jóhannes, Nsumba fyrir leikaraskap og þar með fékk hann rautt spjald því Gústi hafði fengið spjald fyrr í leiknum fyrir að slá boltann með höndinni inní teig andstæðinganna. Þaðan sem undirritaður sat, virtist ekki vera mikil snerting í þessu atviki en þeir sem staðsettir voru á betri stað, sögðu þetta hreina og klára vítaspyrnu. En það verður víst ekki deilt við dómarann og það sannaðist í þessum leik sem alltaf áður.
Niðurstaðan því 0-0 jafnteli og fjórða jafnteflið því staðreynd á Hásteinsvelli í sumar en auk þess hefur Eyjaliðið tapað einum leik á heimavelli. Liðið hefur því tapað 11 stigum á heimavelli þegar rúmlega helmingur mótsins er búinn og það gæti kostað liðið úrvalsdeildarsæti þegar lokatalning stiga fer fram í haust. Það er eins og menn þori ekki að sækja almennilega á heimavelli og þegar liðið kemur uppá vallarhelming andstæðinganna þá gerist bara ekki neitt eða hlutirnir verða mjög tilviljunarkenndir. Í þeim tveimur leikjum þar sem liðið hefur ekki verið ráðþrota sóknarlega á heimavelli, var gegn Stjörnunni og Reyni í bikarnum og það vita allir hvernig þeir leikir fóru. Þetta er eitthvað sem liðið verður einfaldlega að fara að laga, mótið styttist með hverjum leiknum.
Yngvi Borgþórsson var sem klettur á miðjunni og Gústi og Jeffsie áttu ágætis spretti í kvöld. Gústi er greinilega framtíðarleikmaður. Hann er mjög snöggur, með góða fyrstu snertingu og kemur boltanum alltaf í spil. Lítið reyndi á vörnina í þessum leik enda lá lið Fjarðabyggðar vel til baka og beittu skyndisóknum sem urðu ekki margar í leiknum. Atli átti líklegast sinn lélegasta leik í sumar eftir þrennuna í síðasta leik gegn Reyni og munar um minna. Hann var alltof mikið að reyna að hnoðast sjálfur í gegnum vörnina í stað þess að spila boltanum. Lítið kom út úr Inga Rafni sem hefur einfaldlega ekki náð að finna rétta dampinn í sumar. Aðrir geta ugglaust betur en mestu munaði um liðsheildina og að þora að sækja á andstæðingana því það sást greinilega í leiknum að lið ÍBV er mun betra knattspyrnulið heldur en lið Fjarðabyggðar.
Lið ÍBV í leiknum: Krummi-Pétur í hægri bak-Garner í vinstri bak-Palli og Bjarni í miðvörðum-Yngvi og Andy á miðjunni-Jeffsie fremstur á miðjunni-Gústi hægri kantur, Ingi Rafn vinstri kantur og Atli frammi.
Varamenn: Bjarni Rúnar kom inn fyrir Inga Rafn á 75. mín, Anton kom inn fyrir Yngva á 75. mín, Stefán Björn kom inn fyrir Pétur á 86. mín. Elías Fannar og Sindri Viðarsson komu ekki við sögu í leiknum.