Fótbolti - 1 deild: Fjarðabyggð kemur á Hásteinsvöll í fyrsta sinn
31.júl.2007 09:10
Í kvöld er enn einn mikilvægi leikur ÍBV á þessu sumri þegar lið Fjarðabyggðar mætir í heimsókn. Fjarðabyggð hefur aldrei áður komið til Eyja og leikið við Eyjamenn svo það verður spennandi að sjá hvernig þeir höndla að mæta í gryfjuna. Eyjamenn sitja í 5. sæti með 22 stig og eru 4 stigum á eftir Fjölni sem er í þriðja sæti. Fjarðabyggð er svo í 4. sæti með einu stigi meira en ÍBV. Ef leikurinn vinnst ekki í kvöld verður að segjast að möguleikar Eyjamanna á að fara upp eru orðnir frekar litlir. Það er því ljóst að sigur og ekkert annað kemur til greina hjá strákunum í kvöld, eiginlega lífsnauðsynlegt. Ingi Rafn kemur aftur í hópinn eftir meiðsli og Jeffsie og Yngvi munu líklega byrja en þeir hvíldu gegn Reyni, Yngvi kom reyndar inná í stutta stund og setti mark.
Fínasta veður er í Vestmannaeyjum eins og er, 12 stiga hiti og eilítil væta. Engin þoka er þannig að það ætti að vera flugfært til Eyja í dag. Leikurinn hefst kl 19:00 og eru allir Eyjamenn sem vettlingi geta valdið, hvattir til að leggja leið sína á Hásteinsvöll í kvöld.