Fótbolti - 1 deild: Miklir yfirburðir gegn Reyni
29.júl.2007 23:00
Gestur Magnússon skrifar:
Leikurinn byrjaði fjörlega en Atli slapp í gegn strax á fyrstu mínútunum eftir að hafa pressað á varnarmenn Reynis, en markvörður Reynis varði vel. Fljótlega tóku Eyjamenn öll völd á vellinum, þó að það tæki 24 mínútur að brjóta ísinn. Þá var aukaspyrna tekin rétt við miðlínu, löng sending á fjærstöng og Augustine Nsumba (Gústi), nýjasti leikmaður IBV framlengir boltanum fyir markið og Pétur setti svo boltann í netið. Þremur mínútum seinna kom lagleg sókn, boltinn barst upp í vinstra hornið þar sem Atli kom á ferðinni í teiginn og smellti honum upp í markhornið. Á 37 mín. átti Andrew skot sem fór rétt framhjá markinu. Rétt undir lok fyrri hálfleiks slapp Gústi í gegn einn á móti markverði en boltinn fór rétt fram hjá stönginni. Sanngjörn staða í hálfleik 2-0.
Seinni hálfleikurinn var enn fjörugri en það voru aðeins liðnar tvær mínútur þegar Bjarni Rúnar kemst upp að endamörkum og sendi fyrir markið. Gústi kom þar á móti en lét boltann fara í gegnum klofið beint til Atla sem stóð á bakvið hann og þrumaði hann boltanum upp í markhornið, vel gert hjá Atla en ekki síður hjá Gústa. Á 61. mín. átti Atli svo skot rétt framhjá markinu en hann var funheitur í leiknum. Á 65. mín. pressuðu Atli og Gústi vel á varnarmenn Reynis sem endaði með því að Atli vann boltann og sendi inn á Gústa sem reyndi að vippa en markvörður Reynis varði glæsilega. Fjórum mínútum seinna komst Atli óvænt í færi en markvörðurinn varði með fætinum í horn. Nú var leikurinn orðin algjör einstefna og á 70. mín. er dæmd vítaspyrna þegar varnarmaður Reynis stöðvaði fyrirgjöf með hendi. Ingvi sendi markvörðinn í rangt horn og skoraði örugglega. Á 84. mínútur átti Pétur fast skot sem fór í varnarmann og yfir markvörðinn, staðan orðin 5-0. Mínútu seinna fullkomnaði Atli þrennuna eftir að hafa fengið stungusendingu frá Pétri.
Eins og tölurnar gefa til kynna þá voru þetta miklir yfirburðir, en ef undirrituðum telst rétt til þá áttu Reynismenn ekkert skot sem rataði á markið og aðeins eina hornspyrnu í leiknum. Lið ÍBV var sannfærandi, flest allir voru að spila mjög vel. Sóknarparið Atli og Gústi voru sívinnandi og gerðu varnarmönnum erfitt fyrir með sínum mikla hraða. Einnig voru Pétur og Andrew góðir á miðjunni, Andrew stoppaði margar sóknir Reynis, vann líklega flest öll sín návígi og tók marga skallabolta. Pétur vann einnig vel til baka og skilaði boltanum ávallt á samherja. Margir aðrir áttu fínan leik og það verður skemmtilega erfitt fyrir Heimi að koma Jeffsy inn í liðið í næsta leik gegn Fjarðarbyggð.
Dómari leiksins: Valgeir Valgeirsson (einkunn 7). Þetta var frekar auðveldur leikur að dæma og hann átti ekki marga feila.
Lið ÍBV: Hrafn-Arnór, Bjarni Hólm (Sindri V.), Palli (Ingvi), Matt-
Andrew, Pétur, Þórarinn Ingi, Stefán (Bjarni R.), Gústi, Atli