Fótbolti - 1 deild: Reynismenn heimsóttir á morgun

26.júl.2007  18:34
Eyjapeyjar halda til Sandgerðis á morgun og leika þar við heimamenn í Reyni. Liðin hafa mæst tvisvar í sumar, í deild og bikar. Í deildarleiknum, sem fór fram á Hásteinsvelli, fóru leikar 1-1 þar sem Eyjamenn spiluðu ekki vel. Í seinna skiptið, í VISA bikarnum, var svolítið annað uppá teningnum. Þá slátruðu Eyjamenn Reynismönnum, 10-0 og var hálf skrýtið að horfa á jafn mikla yfirburði og Eyjamenn höfðu í þeim leik. Slíkir yfirburðir verða líklega ekki uppá teningnum á morgun, þótt ljóst sé að ÍBV liðið er klassanum ofar en Reynir. Sigur er allt sem skiptir máli og hvort sem hann vinnist með einu marki eða tíu gildir í raun einu. Vanmat er alltaf hætta í leik eins og á morgun, en strákarnir eiga að vita hvað slíkt hefur í för með sér.

Meiðsli eru sem fyrr í herbúðum liðsins þótt meiðslalistinn hafi aðeins styst. Jonah, Andri og Anton verða ekki með, auk þess sem Ingi Rafn er í banni. Ian Jeffs meiddist einnig lítillega í leiknum gegn Þór og hefur ekki getað beitt sér að fullu á æfingum í vikunni. Það er þó talið líklegt að hann spili á morgun.

Við kíktum á æfingu hjá strákunum í hádeginu og þar var mikil stemning. Teknar voru nokkrar skotkeppnir og sáust glæsileg tilþrif hjá nokkrum. Palli fór t.d. á kostum og tók eina netta hjólhestaspyrnu og Andy tók nokkur Úgandaspor. Greinilegt er að mjög góður andi er í hópnum og strákarnir ná vel saman. Nokkrum myndum var smellt af æfingunni og hægt er að skoða þær hér að neðan.

Allir Eyjamenn á fastalandinu eru hvattir til að leggja leið sína í Sandgerði á morgun, en leikurinn hefst kl 19:00. ÁFRAM ÍBV!