Fótbolti - 1 deild: Sex stiga leikur á morgun gegn Þór
19.júl.2007 21:19
Eyjamenn fara á Akureyri á morgun og mæta þar Þórsurum í annað skiptið í sumar. Í fyrri umferðinni endaði leikur liðanna með 1-1 jafntefli á Hásteinsvelli, þar sem Eyjamenn jöfnuðu þegar stutt var eftir leiks, úr vítaspyrnu. Eyjapeyjar hafa ekki fagnað mikið undanfarið. Fjórir tapleikir í röð staðreynd en fyrir þann fyrsta, hafði liðið ekki beðið lægri hlut í neinum einasta leik í sumar. Liðið hefur verið að glíma við meiðsli lykilmanna og hefur það hoggið stór skörð í liðið. Líkt og í síðustu leikjum verður liðið einnig vængbrotið gegn Þór. Ekki bara vegna meiðsla heldur bætast nú við leikbönn hjá tveimur lykilmönnum. Atli Heimisson og Páll Hjarðar verða báðir í leikbanni gegn Þór auk þess sem Andri Ólafsson, Jonah Long, Bjarni Hólm Aðalsteinsson og Þórarinn Ingi Valdimarsson verða ekki með vegna meiðsla. Það þýðir hins vegar ekki fyrir leikmenn að skýla sig á bakvið meiðsli og bönn, aðrir í hópnum verða einfaldlega að stíga upp í staðinn og taka ábyrgð, eitthvað sem einnig hefur vantað.
Heimir þjálfari sagði að þetta yrði án efa hörkuleikur enda mikið í húfi. ,,Það eru allir búnir að afskrifa okkur, bæði blaðamenn og aðrir en við erum ekki sammála því. Það er nóg eftir af mótinu, seinni helmingur mótsins er allur eftir og við erum hvergi nærri hættir. Það er hins vegar ljóst að við verðum að ná í þrjú stig í þessum leik, rétt eins og í öllum sem framundan eru. Þórsararnir eru í sömu vandræðum og við og munu því mæta grimmir til leiks og það er það sem við þurfum að gera einnig." Hann sagði að það þýddi ekkert að væla yfir þessum meiðslum endalaust. ,,Hinir leikmennirnir verða bara að leggja meira á sig í staðinn, þetta er ósköp einfalt. Þeir sem spila verða bara að vera klárir í verkefnið."
Leikurinn fer fram á Akureyrarvelli á morgun og hefst kl 19:15. Ekki er komið á hreint hvort leiknum verði útvarpað, það fer eftir því hvort útvarpslýsirinn okkar knái fái sæti um borð í flugvélinni en liðið flýgur í 19 sæta vél norður yfir heiðar og er hún fullbókuð eins og er. Eyjamenn á norðurhluta landsins eru hvattir til að mæta og hvetja strákana í þessum mikilvæga leik.