Fótbolti - 1 deild: Ósanngjarnt tap gegn Fjölni

17.júl.2007  09:12

Gestur Magnússon skrifar:

Lið ÍBV: Hrafn-Arnór, Palli, Yngvi, Matt- Andrew, Ingi Rafn (Stefán H.), Jeffsy, Pétur (Bjarni Hólm),Bjarni Rúnar (Anton)-Atli.

Leikurinn byrjaði fjörlega og strax á 7. mín. átti leikmaður Fjölnis sendingu inn í teig sem endaði efst í markhorninum, alveg óverjandi fyrir Hrafn og Fjölnismenn komnir yfir, 1-0.
Eftir markið sóttum við vel á þá og á 12. mín. kemur sending upp í hægra hornið og varnarmaður Fjölnis er aðeins á undan Atla í boltann en Atli rennir sér fram fyrir hann og vinnur boltann, stendur upp og sendir fyrir en varnarmaður sem kemur á móti honum ver boltann með höndinni og víti réttilega dæmd. Vel gert hjá Atla sem var mjög fylgin sér.
Yngvi ( Arsenal- maður) tók vítina og skoraði örugglega framhjá markverði Fjölnis.

Eftir markið skiptust liðin á að sækja og á 22. mín. átti Bjarni rispu upp völlinn og átti gott skot sem fór rétt framhjá, en Bjarni átti fínan leik í gær. Þremur mín. seinna fær Matt gult spjald fyrir frekar saklaust brot, illskiljanlegt í ljósi þess að Fjölnismenn hefði getað verið búnir að fá þrjú gul spjöld þegar þarna var komið, tvívegis þegar þeir stoppa efnileg upphlaup hjá okkur. Á 33.mín áttu Fjölnismenn fast skot rétt yfir markið rétt utan vítateigs.
Á 44. mín. sleppur Bjarni Rúnar næstum í gegnum vörnina en varnarmenn bjarga á síðustu stundu í horn, þarna vorum við farnir að sækja verulega á þá og á sömu mínútu kemur lagleg sókn þar sem boltinn berst upp í hornið og Ingi Rafn kemur með góða sendingu beint á Atla sem skallar að marki og markvörurinn ver vel, heldur ekki boltanum en nær honum rétt áður en hann rúllar yfir línuna. Staðan í hálfleik 1-1 þar sem að Eyjamenn voru heldur sterkari og áttu miðjuna.

Fjölnir átti fyrsta færi síðari hálfleiks þegar skalli eftir aukaspyrnu fór rétt yfr markið. Á 66. mín fá Fjölnismenn annað dauðafæri en Hrafn varði vel skalla af stuttu færi. Á 70. mín. kemur vendipunktur leiksins, þegar mjög umdeilt atvik verður, leikmaður Fjölnis brýtur á Palla þegar hann er löngu búinn að senda boltann frá sér en Palli bregst rangt við og hrindir leikmanni Fjölnis og hlýtur verðskuldað rautt spjald, en það sem vantaði upp á atburðarrásina er að leikmaður Fjölnis var kominn með gult og hefði átt að fá sitt annað gula spjald fyrir sitt brot. En þetta afsakar ekki framgöngu Palla, leikmaður með þessa reynslu á ekki að falla í þessa gryfju. Fjórum mín. seinna fær svo Arnór gult spjald fyrir nokkuð saklaust brot en dómarinn var kominn í ham og orðinn full spjaldaglaður. Þegar leikurinn var að fjara út og leit út fyrir sanngjarnt jafntefli miðað við gang leiksins, skora Fjölnismenn mark í uppbótar tíma, eftir klafs í teignum eru tveir Fjölnismenn óvænt fríir í markteig og skora að stuttufæri, ekki var annað að sjá en að rangstöðulykt væri að markinu, en þar sem að ég var ekki í nægilega góðri afstöðu til að dæma um þetta, látum við vafa standa. Mitt mat er að jafntefli hefðu verið sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins, við vorum með fín tök á leiknum lengst af. En þetta var erfitt síðustu 20 mín.

Liðið var að spila ágætlega, engin áberandi bestur en þó verð ég að nefna að gaman er að sjá ungu leikmennina Atla og Arnór sem eru að sanna sig, þeir eru virkilega að berjast fyrir sínu sæti í liðinu. Jeffsy var að gera fína hluti á miðjunni sem og Pétur og Bjarni Rúnar. Fyrir utan veruleg vonbrigði með úrslit leiksins, verð ég að nefna að sorglegt var að heyra í heitustu stuðningsmönnum Fjölnis í kvöld, önnur eins níð um andstæðingana, þar sem að fúkyrðin fengu að aldeilis að fljúga inn á völlinn, en það náði hápunkti (eða lápunkti) þegar Andrew og markvörður Fjölnis skullu saman, þá gékk ég til eftirlitsmanns leiksins og spurði hann hvernig honum litist á þettta, hann tjáði mér að hann væri búinn að skrá þetta allt niður og á ég von á að þetta fari sýna leið hjá KSÍ. Sorglegt að 10-15 mis drukknir stuðningsmenn (einstaklingar) seti svona ljótan blett á Fjölni.

Dómari leiksins: Þoroddur Hjaltalín (einkunn 4) Hann sleppti 2-3 gulum spöldum á Fjölnismenn á fyrstu 30. mín. en tók síðan verulega við sér þegar leið á leikinn. Honum til varnar virtust línuverðirnir ekki vera mjög traustir, að hann þáði ekki alltaf þá hjálp sem þeir veittu.