Fótbolti - 1 deild: Mikilvægasti leikur sumarsins á morgun

15.júl.2007  14:47
Eyjamenn heimsækja Fjölnismenn í Grafarvoginn á morgun, mánudag. Klisjan heldur áfram; þetta er líklegast mikilvægasti leikur liðsins í sumar. Gengið hefur aðeins hrapað undanfarið hjá liðinu eftir fínt gengi lengst af móti. Síðustu þrír leikir hafa endað með tapi, gegn FH 0-3 í bikarnum, Þrótti 1-4 í deild og Grindavík 3-1 í deild. Leikurinn þar á undan var 1-1 jafntefli gegn Njarðvík þannig að strákarnir hafa ekki unnið leik síðan þeir slátruðu Reynismönnum 10-0 í VISA bikarnum þann 25. júní. Það er spurning hvort það hafi hreinlega haft slæm áhrif á liðið að vinna svona ótrúlegan sigur, það hefur allavega allt gengið á afturfótunum síðan þá.

Eins og flestir vita þá hafa mikil meiðsli herjað á liðið á undanförnum vikum og það hefur að sjálfsögðu átt sinn þátt í hvernig síðustu leikir hafa farið, en mikið æfingaálag í byrjun sumars til viðbótar við mikið leikjaálag, hefur greinilega ekki farið vel í mannskapinn. Í leiknum á morgun verða, sem fyrr, nokkrir leikmenn ekki með. Andri er meiddur en hann hefur átt í basli með bak og nára í vetur og sumar og nú hefur hnéð bæst við. Óttast menn jafnvel að drengurinn sé með rifinn liðþófa í hnénu en hann fer í myndatöku á morgun í Reykjavík. Jonah Long er sem fyrr frá vegna nárameiðsla og verður líklegast ekkert meira með í sumar. Bjarni Hólm, sem meiddist á hné gegn Grindavík, verður líklegast ekki með á morgun en Anton sem meiddist á mjöðm í leiknum gegn Þrótti verður með. Bjarni sagði í samtali við ibv.is að hann væri ekki góður í hnénu og færi líklegast ekki með liðinu til Reykjavíkur á morgun, en það væri þó ekki alveg 100% öruggt. ,,Ég er búinn að vera slæmur í hnénu eftir að ég og Krummi skullum saman í leiknum gegn Grindavík. Það eru miklar bólgur undir hnéskelinni og einhver vökvi og ég þarf að fara í frekari rannsóknir," sagði Bjarni. Hann sagði góða stemningu vera í hópnum og að menn væru staðráðnir í að standa saman sem einn maður og snúa genginu við. ,,Menn eru ekkert byrjaðir eitthvað að stressast yfir genginu, langt frá því. Við höfum sett okkur markmið núna í næstu tveimur leikjum og ætlum bara að leggja okkur alla fram í þeim. Þá náum við góðum úrslitum. Menn eru mjög vel stemmdir og jákvæðir. Við erum staðráðnir í að bæta það sem úrskeiðis hefur farið í síðustu leikjum," sagði fyrirliðinn.

Fjölnismenn eru með sterkt lið. Búist var við miklu af þeim fyrir mót en þeir byrjuðu þó illa og töpuðu fyrstu tveimur leikjunum sínum, gegn Reyni Sandgerði og Fjarðabyggð. Þeir náðu jafntefli í þriðja leiknum gegn Stjörnunni en eftir að þeir fengu gríðarlegan liðsstyrk frá FH, þá Heimi Snæ Guðmundsson, Ólaf Pál Snorrason og Atla Viðar Björnsson, þá hefur boltann farið að rúlla hjá liðinu. Það situr nú í fjórða sæti með 17 stig, einu stigi meira en ÍBV sem situr í því fimmta með 16 stig. Fjölnir hefur skorað flest marka allra liða í deildinni eða 25 sem segir okkur að þeir eru mjög gott sóknarlið. Til samanburðar hefur ÍBV skorað 12 mörk. Á móti kemur að þeir hafa fengið svolítið af mörkum á sig, en alls hafa 14 boltar legið í netinu hjá liðinu á meðan markmenn Eyjaliðsins hafa fengið á sig 10 mörk, þar af fjögur í síðasta leik gegn Þrótti.

Fjölnir er eina liðið hingað til, sem hefur sigrað efsta liðið Grindavík, en það gerðu þeir í heimaleik þann 29. júní s.l. með einu marki gegn engu. Markahæstir hjá Fjölni eru Tómas Leifsson og Atli Viðar Björnsson, sem báðir hafa farið á kostum, og skorað sex mörk. Athyglisvert er að Atli hefur skorað sex mörk í einungis fimm leikjum. Eyjaliðið þarf því greinilega að hafa góðar gætur á þessum tveimur.

Áhangendur og stuðningsmenn ÍBV: Nú er að duga eða drepast. Sýnum úr hverju við erum gerð, mætum í Grafarvoginn annaðkvöld kl 19:00 og búum til 12. manninn í Eyjaliðinu með stuðningi okkar.

ÁFRAM ÍBV!