Fótbolti - VISA-bikar karla: FH-ingar gerðu það sem þurfti

11.júl.2007  09:45
FH-ingarnir sýndu hversu sterkir þeir eru þegar þeir lögðu Eyjamenn 0-3 í gærkvöldi. Þeir spiluðu þó ekki vel, fóru í gegnum leikinn nánast í öðrum, þriðja gír, en gerðu einfaldlega það sem þurfti til að vinna og ekki brot meira.

Byrjun Eyjamanna hefur eflaust komið FH í opna skjöldu. Liðið lá aftarlega og beitti hættulegum skyndisóknum þar sem Krummi markmaður fór fremstur í flokki með eitruð útsspörk. Atli og Stebbi nýttu svo hraðann sinn til fullnustu og voru varnarmenn FH oft í mestu vandræðum með þá. Heimamenn fengu nokkur ágætis skotfæri á fyrstu mínútunum ásamt nokkrum hættulegum hornum en strákarnir náðu ekki að nýta sér þau. FH liðið fékk þó úrvalsfæri á 13. mínútu þegar Tryggvi Guðmundsson fékk sannkallað dauðafæri en skallaði beint á Krumma í markinu. Nokkrum mínútum síðar átti Ingi Rafn fínan sprett upp vinstri kantinn og var kominn í gott færi en skotið laust og Daði átti ekki í miklum vandræðum með það. Matt Garner komst svo sennilega næst því að skora fyrir ÍBV í leiknum þegar hann sneiddi skutluskalla of mikið eftir góða fyrirgjöf frá hægri kanti, og fór skallinn vel framhjá.

Atvik fyrri hálfleiks var líklegast þegar Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH trylltist þegar dómari leiksins bað hann vinsamlegast um að færa stól sem hann sat á við varamannaskýlið, aftur fyrir skýlið, enda slíkt ekki leyfilegt. Ólafur jós skömmum yfir dómarana sem og starfsfólk ÍBV og var þetta ekki í eina skiptið í leiknum sem slíkt gerðist. Ef þetta er sú hegðun sem Ólafur temur sér vanalega í leikjum þá er það Fimleikafélagi Hafnarfjarðar ekki til framdráttar.

Staðan 0-0 í hálfleik og Eyjamenn nokkuð sáttir við gang mála á meðan FH liðið var orðið pirrað. En sælan hélt ekki mikið lengur. Á 52. mín skoruðu FH-ingarnir eftir ótrúlegan sofandahátt í vörn ÍBV, mark á sannkölluðu silfurfati. Þá gerðist það sem menn óttuðust, strákarnir misstu trúna á þessu og ekki bætti úr skák er Atli Heimis þurfti að fara meiddur af leikvelli á 65. mín. Í þeirri stöðu hafði liðið ekki lengur hægri kantmann og í staðinn fyrir að sóknarmaður liðsins færi strax niðrí kantstöðuna á meðan skipting var gerð klár þá var enginn leikmaður á hægri kantinum sem hjálpaði FH-ingunum mjög í marki númer tvö. Þeir brunuðu auðveldlega upp kantinn og náðu fyrirgjöf sem endaði með því að Bjarki Gunnlaugsson, sem þá var nýkominn inná sem varamaður, skoraði auðvelt mark á 65. mín. Eftir þetta gerðist lítið sem ekkert alveg til leiksloka. FH liðið bætti þó við einu marki og var þar að verki Tryggvi Guðmundsson. Lokastaðan 0-3 fyrir Íslandsmeistarana sem var kannski of stór sigur ef litið er á heildarmyndina.

Strákarnir geta borið höfuðið hátt eftir leikinn í gær. Nokkra sterka menn vantaði í liðið, auk þess sem nokkrir voru ekki í fullu standi inná vellinum. Auk þess var verið að eiga við besta lið Íslands og í fyrri hálfleik þá var ekki að sjá hvort liðið væri Íslandsmeistari og hvort liðið væri í 5. sæti í 1. deild. Í síðari hálfleik gerðu Eyjapeyjar sig seka um leiðinleg mistök sem færðu FH-ingunum mörkin á spottprís. Nú er bara að rífa mannskapinn upp, meiðslalega sem og andlega, og mæta tvíefldir í leikinn gegn Fjölni á mánudaginn, sem er nánast orðinn að úrslitaleik um það hvort ÍBV ætlar sér uppí efstu deild á ný í lok tímabilsins.

Liðið:
Krummi í markinu, Arnór hægri bak, Þórarinn Ingi vinstri bak, Matt og Andri miðverðir, Andy og Yngvi á miðjunni, Pétur fremstur á miðjunni. Ingi Rafn á vinstri, Atli á hægri og svo Stebbi Hauks frammi. Inná komu: Bjarni Rúnar kom inn fyrir Atla á 67. mín, Egill kom inn fyrir Þórarinn á 76. mín og Guðjón Ólafs kom inn fyrir Pétur Run á 76. mín.