Fótbolti - 1 deild: Annað tapið í röð
07.júl.2007 19:00
Menn óttuðust að ekki myndu margir mæta á leik ÍBV og Þróttar í dag þrátt fyrir Goslokahátíð enda ein sex brúðkaup í gangi á sama tíma og leikurinn. Það varð þó ekki úr því og þeir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína á völlinn studdu vel við liðið. Flestir bjuggust við hörkuleik og spennandi en það fór á annan veg. Þróttarar hreinlega rúlluðu yfir Eyjapeyja á fyrstu 25 mínútum leiksins og heimamenn vissu varla sitt rjúkandi ráð. Eftir sex mínútur hafði Hjörtur Hjartarson skorað fyrsta markið. Hann fékk þá sendingu fram og fór illa með varnarmenn ÍBV og vippaði svo glæsilega yfir Hrafn í markinu, sem kannski var kominn of framarlega. Aðeins fimm mínútum síðar skoruðu Þróttarar annað markið. Sending kom fyrir markið, sóknarmaður Þróttar var felldur og héldu allir að Kristinn Jakobsson dómari ætlaði að dæma víti. Hann lét þó leikinn halda áfram, boltinn fór lengra inn í teiginn þar sem Anton átti í baráttu við sóknarmann Þróttar. Svo virtist sem Þróttarinn hafi hrint Antoni sem féll í grasið og skóflaði boltanum einhvern veginn með höndinni þegar hann lá. Þá flautaði Kristinn víti sem líklegast var réttur dómur. Hjörtur skoraði svo örugglega úr vítinni, staðan orðin 0-2 eftir 11 mínútna leik, algert rothögg fyrir Eyjamenn. Þremur mínútum síðar fékk Hjörtur svo dauðafæri eftir misheppnað útspark frá Krumma í markinu en hann náði sem betur fer að verja erfitt skot Hjartar.
Það var fyrst á 16.mínútu sem Eyjamenn létu eitthvað að sér kveða. Þá fengu Andy og Anton dauðafæri hvor á eftir öðrum, markvörðurinn varði frá Andy og svo hitti Anton ekki boltann inní markteig. Á 24. mínútu kom svo stungusending inn fyrir vörn ÍBV og Hjörtur kláraði færið örugglega. Varnarmenn ÍBV og áhorfendur voru flestir á því að um rangstöðu væri að ræða en línuvörðurinn var alveg viss í sinni sök. Staðan 0-3 í hálfleik og leikurinn í raun búinn.
Síðari hálfleikur var svo skrautlegur í meira lagi. Eyjapeyjar fengu hvert dauðafærið á fætur öðru en besti maður leiksins, Ólafur Þór Gunnarsson, markvörður Þróttar varði hreinlega allt sem á markið kom. Sumt var einfaldlega vegna lélegra skota okkar manna en hann sýndi engu að síður ótrúleg tilþrif í markinu og hreinlega bjargaði leiknum fyrir Þróttara því Eyjamenn hefðu hæglega getað skorað 4-5 mörk í síðari hálfleik. Á 67. mínútu brotnaði reyndar ísinn í fyrsta og eina skiptið í leiknum er Atli skoraði glæsilegt mark eftir gott einstaklingsframtak. Hann þrumaði þá boltanum niðrí vinstra hornið af um 20 metra færi, algerlega óverjandi. Þróttarar ráku svo síðasta naglann í kistuna á 91. mínútu er þeir skoruðu eftir skyndisókn, lokastaðan 1-4 fyrir Þrótt.
Lið ÍBV var einfaldlega ekki með í fyrri hálfleik og vörnin átti í tómum vandræðum með Hjört Hjartarson sem átti stórleik. Í síðari hálfleik hreinlega óð liðið í færum, sannkölluðum dauðafærum en leikmönnum virtist fyrirmunað að skora. Trekk í trekk var þrumað beint í markmann Þróttar af markteig í stað þess að leggja boltann einfalt í hornið. Grátlegt tap í jafn mikilvægum leik staðreynd en strákarnir fá hrós fyrir að koma til baka jafn vel og þeir gerðu í síðari hálfleik. Undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði liðið auðveldlega getað snúið nær töpuðum leik í hálfleik yfir í sigur en á ótrúlegan hátt náði liðið ekki að nýta þann urmul færa sem það fékk í síðari hálfleik.
Eftir þessa tíundu umferð er liðið enn í 5. sæti með 16 stig en toppliðin fjögur eru við það að stinga af. Grindavík eru efstir með 25 stig, Fjarðabyggð í öðru sæti með 22 stig, Þróttur í þriðja sæti með 19 stig og Fjölnir svo í fjórða sæti með 17 stig. Næsti leikur er bikarleikurinn gegn FH á þriðjudaginn en svo er ekki síður mikilvægari leikur í deildinni, gegn Fjölni á útivelli þann 16. júlí. Vegna tapsins í dag er leikurinn gegn Fjölni í raun orðinn mun mikilvægari en leikurinn í dag og Eyjapeyjar verða nú að bíta í skjaldarendur og koma tvíefldir til baka. Sénsunum fækkar við hvert tapað stig og liðið hefur einungis náð í eitt stig af síðustu níu mögulegum. Nokkra leikmenn vantaði í liðið í dag en Bjarni Hólm og Jonah eru meiddir og voru ekki með í dag, Andy, Anton og Andri spiluðu þrátt fyrir að vera hálfmeiddir, Ingi Rafn var í banni og Jeffsie ekki kominn með heimild.
Liðið: Krummi í markinu, Pétur hægri bak, Palli og Matt í miðvörðum og Þórarinn Ingi í vinstri bak. Yngvi og Andy á miðjunni. Anton á vinstri kanti, Bjarni Rúnar á hægri, Andri fremstur á miðjunni og Atli frammi.
Varamenn: Fannar, Egill (kom inn f. Bjarna Rúnar um miðjan síðari hálfleik), Stebbi Hauks (inn f.Anton á 46. mín), Arnór (inn f. Andy á 46 mín.)