Fótbolti - Nýr leikmaður: Ian David Jeffs kominn aftur

06.júl.2007  17:04
Ian David Jeffs er Eyjamönnum að góðu kunnur. Hann mætti fyrst til Eyja árið 2003 með félaga sínum Tom Betts en báðir komu þeir frá Crewe Alexandra. Jeffsie eins og hann er kallaður spilaði næstu þrjú tímabil með ÍBV og var ávallt einn lykilmanna liðsins. Hann hefur leikið í allt 48 leiki með liðinu og skorað átta mörk. Hann hefur svo nælt sér í 11 gul spjöld og 3 rauð á þessu tímabili.

Jeffsie fannst ekki nóg að leika bara knattspyrnu ÍBV heldur gerði hann sér lítið fyrir og náði sér í kvonfang frá Eyjum en hann býr með Sigríði Ásu Friðriksdóttur og eiga þau einn lítinn snáða, Liam Daða Jeffs, sem er rúmlega eins árs. Eftir tímabilið 2005 færðu þau sig um set til Svíþjóðar þar sem Jeffsie gerði samning við Örebro, gamla lið Hlyns Stefánssonar. Jeffsie spilaði stórt hlutverk tímabilið 2006 er liðið lék í næstefstu deild og átti mikinn þátt í að liðið fór upp í Allsvenskan. Nú í vetur hefur þjálfarinn haft hann úti í kuldanum, án nokkurrar ástæðu og Jeffsie því ákveðið að snúa á heimaslóð og leika með sínum gömlu félögum í ÍBV út tímabilið í það minnsta. Við hittum Jeffsie þegar hann var nýlentur og byrjuðum að spyrja hann útí dvöl hans í Svíþjóð sem hann segir hafa verið góða reynslu. ,,Dvölin í Svíþjóð var mjög góð, bæði fyrir mig og fjölskylduna. Við elskum Örebro og höfum eignast nokkra mjög góða vini þar. Veðrið er frábært þar yfir sumartímann og liðið er gott. Eina slæma sem hefur gerst er í raun þegar mér var hálfpartinn sparkað út af þjálfaranum og hef ekki spilað síðan."

Hlakka til að heyra í Kela
Jeffsie segir nokkurn mun vera á milli ÍBV og Örebro en einnig á gæðum knattspyrnunnar í löndunum tveimur. ,,Aðalmunurinn á ÍBV og Örebro er stærð félagsins og bæjarins en það eru yfir 100 þúsund manns sem búa í Örebro á miðað við rúmlega 4000 hér. Því segir það sig sjálft að mun fleiri mæta á leikina en um 8-9000 manns mæta að meðaltali á leiki Örebro liðsins. Það gerir einnig andrúmsloftið og stemninguna mun betri og eflir leikmennina. En ég get samt ekki beðið eftir að byrja að spila aftur fyrir framan stuðningsmenn ÍBV og sérstaklega hlakkar mig til að heyra í Kela Sigurjóns öskra ÁFRAM ÍBV, ÁFRAM ÍBV," segir Jeffsie og hlær. ,,Aðalmunurinn svo á milli íslenska boltans og þess sænska er tempóið í leikjum og svo er mun meira og betur pressað í sænska boltanum. Einnig eru leikmenn hraðari í Svíþjóð en hér á Íslandi."

Líst vel á liðið og þjálfarann
Honum líst vel á liðið og Heimi þjálfara. ,,Heimir virðist vita alveg hvað hann er að gera og hann er mjög skipulagður svo mig grunar að hann láti liðið vinna vel og taka vel á því. Ég þekki auðvitað nokkra af strákunum síðan ég var hérna síðast að spila, tímabilið 2005. Ég hef bara verið í nokkra daga þannig að það tekur auðvitað smá tíma fyrir mig að læra inná nýju strákana en þeir virðast allir vera ágætis strákar. Ég hef fylgst með deildinni og liðinu aðeins í sumar og það virðist sem þetta verði hörð barátta á milli 4-5 liða um að fara upp í efstu deild og ég er viss um að við verðum eitt af þeim liðum. Við eigum flest efstu liðin eftir á heimavelli í seinni hluta mótsins og það er alltaf kostur."

Hræðilegt að fylgjast með ÍBV fara niður
Jeffsie sagði það ekki hafa verið góða tilfinningu að sjá ÍBV falla í fyrra. ,,Nei, það var ekki sérstaklega gaman fyrir mig að horfa uppá liðið falla. Sérstaklega af því að ég hafði verið hjá liðinu í nokkur ár og vissi uppá hár hversu mikils virði það er fyrir klúbbinn og bæjarfélagið í heild að liðið væri í efstu deild. En svona er fótboltinn bara og vonandi getum við leiðrétt þetta allt saman á þessu tímabili og komið okkur þangað sem félagið á heima, í efstu deild."

Hata Herjólf!
,,Það er frábært að vera kominn aftur, ég á marga góða vini hérna og svo auðvitað fjölskyldu. Það tekur okkur kannski nokkra daga að venjast íslenska lífsstílnum aftur en eftir það verðum við í góðum málum. Það er allt gott við Vestmannaeyjar, strákarnir, liðið, fólkið og Eyjan sjálf. Ef ég ætti að kvarta yfir einhverju þá er það kannski samgöngurnar, hvernig maður kemst af Eyjunni. Sérstaklega yfir vetrartímann þar sem ég hata þetta helvítis skip! En það er frábært að vera kominn aftur og ég get ekki beðið eftir að spila fyrir félagið aftur og segi bara eins og Keli: Áfram ÍBV!"

Ljóst er að það er gríðarlegur styrkur fyrir Eyjaliðið að hafa nælt í þennan sterka knattspyrnumann sem er einnig hinn vænsti piltur. Velkominn aftur Jeffsie og gangi þér vel!