Fótbolti - 1 deild: Gríðarlega mikilvægur leikur á morgun kl 16:00
06.júl.2007 17:11
Einn mikilvægasti leikur sumarsins hjá Eyjamönnum fer fram á Hásteinsvelli á morgun er Þróttarar mæta í heimsókn. Eyjamenn sitja í 5. sæti með 16 stig en Þróttarar eru í 4. sæti, einnig með 16 stig, en örlítið betri markatölu. Grindvíkingar eru enn á toppnum, nú með 25 stig, en hafa leikið einum leik meira en ÍBV og Þróttur. Það er því ljóst að ef Eyjapeyjar ætla sér að gera einhverja alvöru úr því að fara upp um deild þá dugir ekkert minna en þrjú stig á morgun. Uppskeran var rýr í síðustu viku þar sem einungis eitt stig náðist af sex mögulegum og ljóst að ÍBV liðið verður nú að rífa sig upp aftur og sýna spilamennsku eins og liðið sýndi á móti Stjörnunni og Reyni á heimavelli.
Einhver meiðsli eru í herbúðum liðsins en Andri Ólafs, Andy, Pétur, Bjarni Hólm og Jonah hafa allir verið að glíma við einhver meiðsli og er alls óvíst hvort þeir taki þátt í leiknum á morgun. Aðrir eiga að vera nokkuð heilir. Ian Jeffs er ekki kominn með leikheimild ennþá en fyrsti leikurinn sem hann getur spilað er leikurinn gegn Fjölni á útivelli þann 16. júlí.
Goslokahátíðin verður í fullum gangi í Vestmannaeyjum um helgina og fólk hefur fjölmennt til Eyja í tilefni hátíðarinnar. Því mun án efa verða fjölmenni á Hásteinsvelli á morgun og mikil stemning. Veðurspáin er einnig góð en samkvæmt veðurfræðingunum verður 12 stiga hiti á morgun, þurrt og vindhraði 5 m/sek. Því er engin ástæða fyrir Eyjamenn að mæta ekki á Hásteinsvöll á morgun og styðja liðið í þessum mikilvæga leik sem hefst stundvíslega klukkan 16:00.
ÁFRAM ÍBV !