Fótbolti - Shellmótið: ÍBV með silfur í A-liðum
05.júl.2007 13:21
Shellmótinu lauk um síðustu helgi og náðu ÍBV strákarnir fínum árangri. D3 lenti í 6. sæti, D2 lenti í 5. sæti, D1 lenti í 7-8 sæti, C-liðið í 5. sæti og B-liðið lenti neðarlega. A-liðið náði bestum árangri en strákarnir komust alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir biðu lægri hlut fyrir Breiðablik. Þeir höfðu áður lagt KR-inga í ótrúlega spennandi undanúrslitaleik sem fór í vítaspyrnukeppni. Þar voru strákarnir sterkari á taugunum og skoruðu nánast úr öllum sínum spyrnum. Í úrslitaleiknum áttu þeir þó ekki mikinn séns, Blikarnir voru mun sterkari aðilinn og sigruðu 2-0 en Eyjapeyjar eiga mikið hrós skilið fyrir baráttuna og dugnaðinn sem þeir sýndu í leiknum.
Þetta er mikið afrek hjá strákunum að komast alla leið í úrslitaleikinn en á móti sem þessu er verið að berjast við lið sem hafa ótrúlega stóra hópa eins og KR, Breiðablik, Fjölnir og fleiri lið. Jón Ólafur Daníelsson þjálfari 6. flokks drengja var að vonum ánægður með árangurinn og sagði mótið hafa verið stórkostlegt.
,,Ég get ekki annað en verið sáttur við árangurinn okkar. Við tefldum fram sex liðum og fimm af þeim fóru í átta liða úrslit. Svo má til gamans geta að liðið sem ég hélt að næði lengst fóru styst en það var B-liðið. Ég vissi í raun ekki hverju ég átti von á með A-liðið fyrir mótið. Strákarnir þar hafa verið vaxandi í vetur og náðu bara að toppa á réttum tíma, stóðu sig hreint frábærlega."
Undanúrslitaleikurinn gegn KR var æsispennandi þar sem KR-ingar áttu fjölmörg færi sem ekki nýttust en síðan kláruðu Eyjapeyjar leikinn í vítakeppni. ,,Strákarnir sýndu gríðarlegan karakter í undanúrslitunum með Ársæl Inga markmann fremstan í flokki. Ef maður nýtir ekki færin sín þá vinnur maður ekki leiki og það kom í bakið á KR-ingunum í þessum leik. Ég hafði engar áhyggjur af vítakeppninni enda Ársæll langbesti markmaðurinn á mótinu og leikmennirnir mínir með stáltaugar."
Jón Óli segir að leikmenn sýnir þurfi að halda áfram á sömu braut, æfa vel og vera samviskusamir og þá geti þeir náð langt. ,,Þeir eiga að líta upp til leikmanna eins og Hemma Hreiðars og Margréti Láru. Þau hafa ávallt lagt sig 120% fram í öllu því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur og það er akkúrat það sem þarf til að ná árangri. Svo eru auðvitað fyrrverandi leikmenn eins og Kári Þorleifsson og Dögg Lára Sigurgeirsdóttir sem eru einhverjir bestu leikmenn sem Eyjarnar hafa alið af sér. Þau höfðu geysilegan liðleika og mikla yfirsýn á vellinum. Gæti reyndar orðið erfitt fyrir strákana að fylgjast mikið með þeim í dag en spurning hvort hægt væri að redda gömlum myndböndum af þeim tveimur," sagði Jón Óli léttur í bragði eins og vanalega.
Næstu verkefni 6. flokks er að A-liðið er að fara í úrslitakeppnina í Íslandsmótinu í ágúst en óvíst er með önnur verkefni.