Fótbolti - 1 deild: Stórleikur í Grindavík í kvöld

02.júl.2007  16:25
Stórleikur 9. umferðar 1. deildar karla verður í kvöld þegar ÍBV mætir til Grindavíkur og leikur þar við topplið deildarinnar kl 19:00. Eyjamenn sitja í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig en Grindavík er sem fyrr segir í efsta sæti með 19 stig. Það verður því sannkallaður toppslagur í kvöld og ljóst að bæði lið munu selja sig dýrt.

Viðureignir ÍBV og Grindavíkur hafa yfirleitt verið skemmtilegar. Á undanförnum fjórum árum hafa liðin mæst átta sinnum í deildarkeppni og ávallt í efstu deild. Viðureignir liðanna fóru sem hér segir:

2006:
Gri-ÍBV 0-0
ÍBV-Gri 2-1

2005:
Gri-ÍBV 2-1
ÍBV-Gri 5-1

2004:
Gri-ÍBV 1-1
ÍBV-Gri 2-0

2003:
Gri-ÍBV 0-2
ÍBV-Gri 1-0

Eins og sjá má á þessum tölum hafa Eyjamenn tekið 17 stig út úr þessum átta leikjum. Fimm sigrar og tvö jafntefli en einungis einu sinni á síðustu fjórum árum hafa Eyjamenn beðið lægri hlut gegn Grindavík. Samkvæmt þessari tölfræði ættu Eyjamenn því að sigra í leiknum í kvöld eða í versta falli ná jafntefli. En fótboltinn byggist ekki á tölfræðinni og þurfa menn að leggja sig alla fram gegn sterku Grindavíkurliði ef hagstæð úrslit eiga að nást. Liðið kemst ekki upp með spilamennsku líkt og það sýndi í síðasta leik gegn Njarðvík, það er á hreinu.

Eyjamenn uppá Íslandi: ALLIR Á VÖLLINN Í KVÖLD OG ÁFRAM ÍBV!