Fótbolti - 1 deild: Áttunda umferðin í kvöld
29.jún.2007 10:58
Áttunda umferð 1. deildar karla fer fram í kvöld. Eyjamenn fá þá enn einn heimaleikinn er Njarðvíkurpiltar mæta til leiks. Gestirnir munu etja kappi við sjóðheita heimamenn sem hafa enn ekki tapað leik í deildinni og hafa nú haldið markinu hreinu í sjö leikjum í röð. Leikmenn ÍBV verða líklega jafn heitir í kvöld og undanfarið enda er veðrið í Eyjum frábært, sannkallað stuttbuxnaveður. 13 stiga hiti og mesti vindur sem mælst hefur í dag yfir tíu mínútur er tveir m/sek sem telst nánast logn.
Shellmótið er hér í fullum gangi og gengur frábærlega vel eins og alltaf. Veðrið gæti auðvitað ekki verið betra fyrir mótsgesti og eru allir keppendur og þátttakendur hæstánægðir að sjálfsögðu.
Njarðvík hefur ekkert farið sérstaklega vel af stað í deildinni. Eftir sjö leiki hafa þeir sex stig og markatöluna 8-13. Liðið hefur tapað þremur leikjum, gegn Þrótti á útivelli, Þór á útivelli og Grindavík á útivelli. Liðið hefur einnig gert þrjú jafntefli, gegn Leikni á útivelli, KA á heimavelli og Víkingi Ólafsvík á útivelli. Liðið vann þó mjög góðan sigur og sinn fyrsta í sumar gegn Fjölni í síðasta leik. Njarðvíkurmenn eru því komnir með sigurblóðið í munninn og munu án efa mæta fílefldir til Eyja í kvöld.
Leikurinn í kvöld hefst klukkan 20:00 og ef tækifærið er ekki núna fyrir Eyjamenn að mæta á völlinn, þá er það tækifæri ekki til. Hægt verður að njóta góðrar knattspyrnu og sóla sig í leiðinni. Áfram ÍBV !