Fótbolti - VISA-bikar karla: Íslandsmeistararnir koma til Eyja
28.jún.2007 14:00
Nú í hádeginu var dregið í 16-liða úrslit í VISA-bikarnum og verða það Íslandsmeistarar FH sem munu mæta á Hásteinsvöll þann 10. júlí. FH var dregið á undan uppúr pottinum en þar sem ÍBV er í 1. deild þá fáum við sjálfkrafa heimaleik. Það er óhætt að segja að það verði spennandi og skemmtilegt að sjá ÍBV mæta meisturunum ef Eyjaliðið verður í þeim ham sem það hefur verið í undanfarnar vikur.
Heimir Hallgrímsson þjálfari sagði í samtali við ibv.is að þetta hefði kannski ekki beint verið óskadráttur. ,,Ég er ekkert alltof sáttur við þennan drátt. Ég hefði nú viljað fá eitthvað annað lið en svona er þetta bara. Við tökum bara á þeim."
En hvernig líst Jóni Ólafi Daníelssyni aðstoðarmanni Heimis á leikinn?
,,Mér líst bara vel á þennan drátt, algjör draumadráttur. Þessi leikur mun sýna okkur muninn á efstu deild og næstefstu deild og það verður gaman að sjá það.
Voru þetta kannski óskamótherjar?
,,Þetta eru klárlega óskamótherjar í mínum augum, alltaf gaman að ráðast á risann. Ég segi kannski ekki alveg að þetta sé viðureign Davíðs og Golíats en það er samt mikill munur á þessum liðum, það er ljóst."
Hvernig verður leikurinn lagður upp og hvernig fer hann?
,,Ég spái því að við pressum á þá eins og lið eiga að gera á móti FH. Hann fer 1-0 fyrir ÍBV engin spurning. Þórarinn Ingi mun skora og svo fær hann rautt spjald stuttu seinna en við munum halda það út."
Nonni hafði þetta að segja að lokum: ,,Ég vil byrja á því að bjóða stórmeistarann Ian Jeffs velkominn til Eyja og svo auglýsi ég eftir einstæðum konum í makaval fyrir litla bróðir minn hann Kristján Georgsson, Head of security hjá ÍBV."