Fótbolti - VISA-bikar karla: Tíu marka ótrúlegur sigur

26.jún.2007  11:31
Stuðningsmenn Eyjamanna sem lögðu leið sína á Hásteinsvöll í gær og borguðu sig inn gátu farið sáttir heim. Þeir fengu eitt mark fyrir hverjar 100 krónur sem þeir borguðu sig inn á völlinn og það verður að teljast mjög ásættanlegt, og ódýrt. En Eyjamenn komust í gærkvöldi í 16-liða úrslit í VISA-bikarkeppninni eftir 10-0 sigur á Reyni frá Sandgerði. Sigur liðsins fer í sögubækurnar enda einn stærsti sigur liðsins frá upphafi og skv. eyjafrettir.is sá næststærsti á eftir 11-0 sigri á Selfossi árið 1976.

Heimir breytti liðinu töluvert fyrir leikinn og fékk Fannar t.d. að spila sinn fyrsta leik í markinu. Arnór og Þórarinn Ingi voru í bakvörðunum og Palli og Garner í miðvörðum. Bjarni Hólm og Andy byrjuðu á miðjunni, Stebbi Hauks og Anton á köntunum, Pétur Run fremstur á miðjunni og Atli Heimis frammi. Aðrir sem fengu að spreyta sig voru Gaui Ólafs kom inn fyrir Bjarna Hólm á 31. mín, Egill kom inn fyrir Atla á 46. mín og Ingi Rafn sem kom inn fyrir Palla á 69. mín.

Eins og úrslitin gefa til kynna þá var einungis eitt lið á vellinum í gær og hreint ótrúlegur munur frá fyrri leik liðanna sem fór 1-1 og Eyjamenn að mörgu leyti heppnir að ná stigi úr þeim leik. Ótrúlegt en satt voru það þó Reynismenn sem áttu fyrsta færið en strax á fyrstu mínútu komust þeir í gott færi eftir klaufagang í vörn ÍBV en skutu framhjá. Eftir það tóku Eyjapeyjar öll völd á vellinum. Í hálfleik var staðan 4-0 auk þess sem liðið skapaði sér urmul færa. Tvö mörkin komu frá Atla, annað eftir góða stungusendingu og hina eftir góða fyrirgjöf. Bjarni Hólm og Andy skoruðu báðir með glæsilegum skalla eftir góðar hornspyrnur frá Pétri.

Síðari hálfleikur hófst á sömu nótum. Eftir níu mínútna leik kom fyrsta markið. Stefán Björn Hauksson skoraði þá fyrsta mark sitt fyrir ÍBV í deildarleik eftir góða stungusendingu en Stebbi var þá rétt að byrja sitt hlutverk í leiknum. Á 64. mín skoraði Matt Garner svo með góðum skalla. Fjórum mínútum síðar skoraði Stebbi annað markið sitt eftir stungusendingu. Örstuttu seinna komst hann enn og aftur í gegn, markmaðurinn varði en Stebbi náði frákastinu. Við það var brotið á honum og víti dæmt sem Stebbi tók og setti hann örugglega ofarlega í vinstra hornið. Á 75. mín skoraði Ingi Rafn með góðu skoti neðst í vinstra hornið eftir glæsilega sendingu frá Gaua Ólafs. Átta mínútum fyrir leikslok skoraði Stebbi síðan fjórða mark sitt í leiknum en hann og Anton höfðu þá skotið til skiptis í varnarmenn Reynis inní teig, boltinn féll svo fyrir Stebba sem setti hann örugglega í netið.

Niðurstaðan 10-0 fyrir Eyjamenn og var á köflum eins og handboltaleikur væri í gangi en ekki fótboltaleikur. ÍBV-liðið verður kannski ekki dæmt mjög af þessum leik enda mótspyrnan engin. Ekki er annað hægt en að finna til með Reynismönnum eftir þessa háðulega útreið í gær og líkara því að byrjendur í knattspyrnu hefðu verið á vellinum í gær en ekki lið í 1. deild karla. Það verður þó ekki tekið af Eyjapeyjum að þeir spiluðu frábærlega í gær og kannski má segja um Reynismenn að þeir spiluðu bara ekki betur en andstæðingurinn leyfði. Það var ótrúlegt afrek hjá ÍBV liðinu að halda einbeitingu allan tímann, pressu og baráttu í slíkum leik. Hver einasti maður lagði sig 100% fram og var frábært að sjá það. Mun fleiri mörk hefðu getað verið skoruð með smá heppni, en stuðningsmenn liðsins sætta sig samt alveg við 10-0. Heimir þjálfari sagði í samtali við ibv.is að þetta hefði eiginlega bara verið hálfasnalegur leikur. ,,Nú keppast allir við að finna eitthvað að andstæðingnum, segja hann hafa verið svo lélegan og þar fram eftir götunum og þeir hafi verið að hvíla menn og hitt og þetta en við hvíldum líka fullt af mönnum. Jonah, Krummi, Andri, Bjarni Rúnar voru t.d. ekki með og Bjarni Hólm tekinn snemma útaf ásamt fleirum. Mér finnst bara að við eigum að horfa á það sem við gerðum vel í þessum leik. Við skoruðum úr föstum leikatriðum sem við höfum ekki gert mikið af, fullt af leikmönnum skoruðu og fleira mætti tína til. Þetta allt gefur okkur bara sjálfstraust og það er bara frábært."

Heimir segist ætla að njóta þess í botn að hafa unnið svona stóran sigur. ,,Það er ekki á hverjum degi sem slíkt gerist og ég ætla bara að njóta þess að hafa unnið 10-0 og segi bara að allir eiga að gera slíkt hið sama. Ef við hefðum unnið 5-0 hefðu allir sagt að þetta væri glæsilegur sigur og þar fram eftir götunum en af því að við unnum 10-0 sem bara á ekki að gerast í fótbolta, þá segja allir að það sé útaf lélegum andstæðing. Mér finnst einnig frábært að hafa haldið hreinu sjöunda leikinn í röð og er eiginlega ánægðari með það en að hafa skorað tíu mörk. Þetta er frábært record og ég man bara ekki eftir að lið hafi haldið hreinu svona marga leiki í röð."

Nú á föstudaginn hefst erfið leikjadagskrá hjá Eyjaliðinu en í næstu fjórum leikjum verða andstæðingarnir Njarðvík, Grindavík, Þróttur, Fjölnir og Þór þannig að það verður mjög spennandi að sjá hvernig liðið fer í gegnum þennan kafla í mótinu sem er kannski sá mikilvægasti. Heimir segir alveg ljóst að liðið verði að vera á tánum í næstu leikjum. ,,Þetta eru mjög mikilvægar vikur framundan og við verðum bara að halda okkar striki. Á meðan við höldum hreinu þá erum við í góðum málum og þegar mörkin koma svo líka þá kvíði ég engu."

Til hamingju strákar með þennan ótrúlega sigur og Stebbi með fjögur mörkin!