Fótbolti - VISA-bikar karla: ÍBV-Reynir kl 19:15 í kvöld
25.jún.2007 13:43
Reynismenn mæta til Eyja í annað sinn með skömmu millibili í kvöld er 4. umferð bikarsins verður leikin. Það lið sem sigrar í leiknum fer í 16-liða úrslitin. Eyjamenn verða að teljast mun sigurstranglegri í leiknum í kvöld enda liðið búið að vera á fljúgandi siglingu. Liðið situr nú í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig eftir 7 leiki. Liðið hefur ekki enn tapað leik í sumar og hefur haldið markinu hreinu í fimm leikjum í röð.
Reynismenn byrjuðu mjög vel í mótinu. Þeir sigruðu Fjölni mjög óvænt, 3-0 í fyrsta leiknum, og komu síðan til Eyja og náðu líka óvæntum úrslitum, 1-1 jafntefli. Síðan hefur leiðin legið heldur betur niður á við hjá Sandgerðingum og þeir tapað fjórum leikjum í röð, þar af þremur mjög illa. 1-5 tap gegn Þór, 5-0 tap gegn Stjörnunni og 0-3 tap gegn Fjarðarbyggð er ekki mjög uppbyggjandi fyrir óreynt lið Reynis og spurning hvort þeir séu þegar sprungnir á limminu eftir ágætis byrjun.
Frábært veður er í Eyjum í dag, örlítil gjóla og 12 stiga hiti. Völlurinn í ágætu standi og þurr. Reyndar er ekki sömu sögu að segja af girðingunni í kringum völlinn en norð-austur endinn fór í mask í rokinu um helgina og engu líkara en sprengju hefði verið varpað á girðinguna. Það mun væntanlega þó ekki hafa áhrif á leikinn í kvöld.
Eyjamenn gerðu góða ferð á Vesturlandið í síðustu umferð og tóku öll þrjú stigin gegn Víkingum frá Ólafsvík. Yngvi Borgþórsson, sem hefur átt skínandi leiki með Eyjaliðinu eftir nokkuð margra ára fjarveru, skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok. Yngvi verður því miður ekki með í kvöld en hann náði sér í einhverja skítapest eftir síðasta leik. Ingi Rafn kemur þó aftur í hópinn eftir meiðsli og Andy er einnig kominn aftur frá Afríku. Við heyrðum í Yngva nú rétt í þessu.
,,Ég er bara heima drulluslappur, ælandi og allur pakkinn bara. Maður skorar bara eitt mark og það fer allt í baklás," sagði hann og hló.
Hann sagði að leikurinn gegn Víkingi hafi ekki verið neinn glansleikur. ,,Við höfum oft spilað betur en þetta en það skiptir bara öllu að vinna leikina. Sérstaklega svona leiki gegn kannski lélegari liðum og ég tala nú ekki um þegar við erum að ferðast svona langa leið og taka svona langt ferðalag. Við lögðum af stað á fimmtudegi og komum ekki til baka fyrr en á laugardeginum þannig að það hefði verið ömurlegt að ná ekki einhverju út úr þessum leik."
Yngvi sagði einnig að þreyta hefði verið í mönnum. ,,Þetta var þriðji leikurinn á einni viku og það er bara of mikið. En sem betur fer unnum við og það var mjög mikilvægt. Það er ekkert betra að hafa þetta eins og hjá Fjölni sem vinna kannski leik með átta mörkum og tapa svo næsta leik. Það er betra að hafa þetta bara svona jafnt yfir eins og hefur verið hjá okkur, þeas á meðan við vinnum auðvitað."
Yngva fannst ekki leiðinlegt að skora sigurmarkið. ,,Svo skemmir ekki fyrir að geta skorað eitt og eitt mark og sérstaklega ef það tryggir okkur sigur. Það kom þarna frábær sending frá vinstri kanti en snillingurinn Þórarinn Ingi tók aukaspyrnu sem var alveg stórkostleg, beint á kollinn á mér og ég bara hamraði hann inn. Ég hugsa að David Beckham hefði ekki getað tekið svona flotta aukaspyrnu og ekki slæmt að hafa svona menn í liðinu. Svo var skallinn nú líka algjör snilld, algjör hammer sem sjálfur Halli Gullskalli hefði verið stoltur af."
Yngvi æfði gríðarlega vel í vetur og segist í hörkuformi. ,,Það er ágætt að fá hvíld í kvöld, þótt maður vilji auðvitað spila alla leiki. Annars er ég í mjög fínu formi enda æfði ég eins og skepna í vetur. Ég sá það bara að ef ég ætti að hafa eitthvað í þetta lið að gera þá yrði ég að taka mig gjörsamlega á, og ég gerði það bara. Heimir tók vel á mér, eins og öllum hópnum bara og flestir eru í hörkuformi. Þetta er búið að vera hörkugaman bara það sem af er. Við eigum þó talsvert inni og ég einnig en það hefur samt gengið vel og það er alltaf gaman þegar gengur vel. Ég vona bara að það haldi áfram í kvöld hjá strákunum," sagði rauða ljónið að endingu og hvatti Eyjamenn til að kíkja á völlinn í kvöld.
Eins og fyrr segir verður leikurinn flautaður á kl 19:15 en ekki kl 20:00 eins og upphaflega stóð til.