Fótbolti - 1 deild: Yngvi tryggði sigurinn á lokamínútunum
24.jún.2007 15:55
Strákarnir halda sigurgöngu sinni áfram í fyrstu deildinni. Á föstudagskvöldið síðasta heimsóttu þeir Víking Ólafsvík og fóru með sigur af hólmi 0-1, þar sem markinu var enn og aftur haldið hreinu. Það var Yngvi Borgþórsson sem tryggði okkar mönnum öll þrjú stigin í leiknum en hann skoraði með glæsilegum skalla fimm mínútum fyrir leikslok.
Samkvæmt áhorfendum sem mættu á völlinn spilaði liðið ekki vel. Leikurinn var hundleiðinlegur á að horfa og var lítið um þau glæsilegu tilþrif sem Eyjapeyjar sýndu í síðasta leik gegn Stjörnunni. Eflaust er komin einhver þreyta í mannskapinn vegna álagsins sem verið hefur undanfarið og hefur það sennilega verið að stríða strákunum í þessum leik. En enn og aftur vinnur liðið leik þrátt fyrir að spila ekki vel sem er glæsilegt enda úrslitin og stigin sem ráða í þessu en ekki spilamennskan sem slík þótt einhverjir kröfuharðir áhorfendur séu kannski ekki alveg sammála því.
Svo sannarlega frábær úrslit fyrir liðið sem er nú komið í þriðja sæti deildarinnar á eftir Grindavík og Fjarðabyggð. Næsti leikur er svo bikarleikurinn á morgun en þá koma Reynismenn frá Sandgerði í annað sinn á stuttum tíma á Hásteinsvöll. Þeir náðu einu stigi hér í annarri umferð deildarinnar í 1-1 jafnteflisleik og nokkuð öruggt er að Eyjaliðið ætlar sér ekki endurtaka þann leik.