Fótbolti - 1 deild: Víkingur Ólafsvík heimsóttir í kvöld
22.jún.2007 11:58
Eyjamenn fara alla leið á Ólafsvík í kvöld og leika við heimamenn í Víkingi. Eyjapeyjar áttu frábæran leik síðast á móti Stjörnunni, sinn allra besta leik í sumar, og sigruðu 3-0. Það er hálf skrýtið kannski að tala um að Eyjaliðið hafi valdið vonbrigðum í sumar. Liðið er enn ósigrað í deildinni, hefur fengið einungis tvö mörk á sig og ekki fengið mark á sig í síðustu fimm leikjum, að bikarnum meðtöldum. Síðasti leikur var svo alveg stórkostleg skemmtun þar sem strákarnir sýndu hreint magnaða knattspyrnu á köflum. En eins og Heimir þjálfari sagði eftir leikinn þá er ekkert unnið ennþá. Þetta er rétt að byrja og vonandi halda strákarnir rétt á spöðunum og falla ekki í þá gryfju aftur að hægt sé að klára leikina með vinstri. Hópurinn er aðeins breyttur frá síðasta leik en Ingi Rafn er meiddur og er ekki með í dag og kemur Egill Jó í hópinn í hans stað. Eins er Bjarni Rúnar tæpur. Allir aðrir eiga að vera þokkalega heilir.
Víkingur Ólafsvík eru neðstir í deildinni og hafa ekki unnið leik. Þeir hafa markatöluna 2-16 og því greinilegt að ef þeir fara ekki að gera eitthvað í sínum málum er líklegt að þeir fari niður. Liðið hlýtur því að koma dýrvitlaust til leiks í kvöld gegn ÍBV og strákarnir verða að vera á tánum til að taka á móti því.
Við heyrðum stuttlega í markaskorara liðsins í síðasta leik, Antoni "Trölla" Bjarnasyni nú rétt í þessu. Anton var þá staddur í Reykjavík og var að leggja í hann í Kringluna en liðið átti að hittast þar á Stjörnutorginu, þar sem Krummi ku hafa ætlað að fá sér Dominos en Palli var að hugsa um að skella í sig tveimur ,,skyrbústum" á Skyrbarnum. Palli var reyndar mjög ósáttur við verðið á skyrinu en sagði það í lagi, hann væri á svo góðum launum hjá tengdapabba. Strákarnir ætluðu svo að leggja af stað kl 13:00 til Ólafsvíkur. Tona líst bara þokkalega á leikinn í kvöld. ,,Þeir eru auðvitað í neðsta sæti svo ég vona innilega að leikmenn fari ekki með eitthvað vanmat í leikinn. Ég hef reyndar enga trú á því en maður veit aldrei hvað gerist, þetta er eitthvað ósjálfrátt þetta vanmat, ef það þá kemur. Ég ætla allavega bara að fara í þennan leik eins og alla aðra leiki og vona að hinir strákarnir geri það líka."
Aðspurður um mörkin tvö sem hann skoraði á Hásteinsvelli í síðasta leik, sagði Toni þetta hafa verið frábæra tilfinningu. ,,Það er sko ekkert grín, þetta var æðislegt. Ég hef aldrei skorað áður á Hásteinsvelli í meistaraflokki og svo hef ég heldur aldrei skorað með skalla né með hægri, þannig að það má segja að þessi tvö mörk séu mikil tímamót," sagði Anton og hló.
,,Bjarni Rúnar átti þarna frábæra sendingu fyrir í fyrra markinu og ég, Trölli, kom og skallaði boltann bara yfir markmanninn og missti mig svo alveg í fagnaðarlátunum. Í síðara markinu þá stakk ég mér þarna inni fyrir aftasta mann hjá þeim og fékk glæsilega sendingu frá Stebba. Svo bara setti ég hann með hægri í netið. Nóri (Arnór innsk.blm) þykist nú eiga heiðurinn af þessu marki þar sem hann átti sendinguna á Stebba, sem sagt kom með stoðsendinguna sem skapaði stoðsendinguna, en við hlustum auðvitað ekki á svoleiðis bull."
Toni sagði að síðasti leikur hefði verið alveg frábær og mjög skemmtilegt að vera inná. ,,Þetta var alveg ógeðslega gaman, án djóks. Fyrsti leikurinn í sumar sem var virkilega gaman að spila, leikmenn gerðu allir sem fyrir þá var lagt og það gekk allt upp eins og í sögu. Þetta var einnig svona fyrsti leikurinn sem við áttum fyllilega skilið að vinna en kannski er ekki hægt að segja svona því auðvitað er sigur alltaf sigur og tap er alltaf tap."
Bakvarðastaðan hefur verið svolítið hlutskipti Antons í vetur og í fyrra. En hann segir að honum líði best á kantinum. ,,Í gegnum alla yngri flokkana spilaði ég á vinstri kantinum eða frammi, þannig að ég kann þær stöður best. Ég er mjög sáttur á kantinum og vona að ég verði þar áfram. Annars er mér alveg sama hvar ég spila, bara á meðan ég er í liðinu. Ég get alveg skorað í vinstri bakverði eins og á vinstri kanti," sagði Anton og hló dátt. Hann vonaði að lokum eftir því að sem flestir Eyjamenn legðu leið sína á völlinn í Ólafsvík í kvöld. 17 manns hefðu mætt á Eskifjörð og því ættu fleiri að geta mætt í þennan leik.
Leikurinn verður flautaður á kl. 20:00