Fótbolti - 1 deild: Anton með tvö mörk í glæsilegum sigri
19.jún.2007 23:20
Leikjahrinan heldur áfram hjá ÍBV liðinu en í kvöld tóku þeir á móti Stjörnunni á Hásteinsvelli í blíðskaparveðri. Betra veður er ekki hægt að biðja um fyrir knattspyrnuleik, blankalogn og völlurinn þokkalega þurr. Margir biðu eftir leiknum með mikilli eftirvæntingu því Stjörnumenn voru á ágætis skriði sem og Eyjamenn sem fyrir leikinn voru ósigrandi í sumar og höfðu unnið síðustu þrjá leiki þrátt fyrir að spilamennskan hafi valdið nokkrum vonbrigðum.
Liðin skiptust á að sækja í upphafi leiks. Eftir fimm mínútna leik varði Krummi ágætt skot frá Guðjóni Baldvinssyni sóknarmanni Stjörnunnar. Mínútu síðar fór Krummi í glæfralegt úthlaup en sem betur fer datt boltinn fyrir okkar menn inní teignum. Á 10. mín fengum Eyjamenn stórhættulega aukaspyrnu hægra megin við vítateig Stjörnumann eftir stórkostlega baráttu Atla, sem var hreint magnaður í þessum leik.
Á 14. mín kiksaði fyrirliði Eyjamann, Bjarni Hólm, boltann illilega og Stjörnumenn komust í kjölfarið í dauðafæri en sem betur fer var Krummi vel á verði og bjargaði vel. Eftir þetta tóku Eyjamenn eiginlega öll völd á vellinum. Á 21. mín spiluðu Andri og Atli glæsilega á milli sín og Atli komst í gott skotfæri en skotið var slappt. Mínútu síðar átti Bjarni Rúnar glæsilega sendingu frá hægri kantinum yfir á fjærstöng og þar mætti Anton "Toni litli" Bjarnason og litli naggurinn stangaði boltann í fjærhornið óverjandi fyrir markmanninn, 1-0 fyrir heimamenn.
Eftir markið dró ÍBV liðið sig aðeins til hlés og bakkaði en var þó ávallt með yfirhöndina. Liðið setti svo aftur í fimmta gír undir lok hálfleiksins og á 43. mín kom frábært skyndiupphlaup þar sem Anton var nálægt því að sleppa aleinn í gegn. Rétt fyrir hálfleik átti Bjarni Hólm svo hörkuskalla rétt yfir eftir góða aukaspyrnu utan að hægri kanti frá Atla.
Síðari hálfleikur hófst svipað og sá fyrri endaði. Heimamenn lágu aðeins til baka og beittu stórhættulegum skyndiupphlaupum. Á 50.mín átti Atli alveg hreint magnaða rispu alveg frá miðju og upp að teig þar sem hann fór illa með eina þrjá Stjörnumenn og átti hörkuskot sem small í stönginni. Þetta hefði sennilega orðið mark sumarsins ef þetta hefði farið inn en því miður fyrir Atla var stöngin að þvælast fyrir. Fjórum mínútum síðar fengu þeir hvítklæddu hornspyrnu. Boltinn barst út fyrir teiginn þar sem Pétur Run gerði sér lítið fyrir og hamraði boltann uppí vinstra hornið, glæsilegt mark hjá Pésa.
Eftir þetta skapaði Stjarnan nokkra hættu upp við Eyjamarkið en þó varð ekkert úr því. Á 58. mín voru Eyjamenn heppnir að fá ekki dæmt á sig víti er Bjarni Hólm felldi einn leikmann Stjörnunnar inní teig svo heyrðist upp í stúku. En dómarinn taldi að ekki væri um brot að ræða og því sluppu Eyjapeyjar með skrekkinn þar. Á 78. mín áttu Stjörnustrákar stórhættulega aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn þar sem boltinn sleikti samskeytin.
Þegar ein mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma kórónaði Anton Bjarnason frábæran leik sinn er hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark ÍBV. Glæsileg skyndisókn þar sem menn spiluðu saman með einni, tveimur snertingum, Stebbi sendi síðan á Anton sem slapp einn í gegn og setti boltann örugglega framhjá markverði Stjörnunnar.
Glæsilegur sigur Eyjamanna staðreynd og svo sannarlega langbesti leikur liðsins í sumar. Það verður að segjast eins og er að yfirvegunin, spilið og færsla á mönnum, bæði varnar- og sóknarlega, var eins og hjá alvöru úrvalsdeildarliði og eitthvað sem allir hafa verið að bíða eftir að liðið sýndi. Hreinlega í allt öðrum klassa en liðið hefur sýnt framan af móti. Það er vonandi að strákarnir ofmetnist samt ekki við þetta og haldi áfram á sömu braut, þeir hafa vonandi séð það að það verður að hafa fyrir hlutunum þótt deildin sem þeir eru í heiti 1. deild.
Heimir breytti enn og aftur um lið sem virkaði bara þrælvel og spurning hvort þarna sé komin rétta uppstillingin eða rétta blandan sem hann hefur verið að leita eftir. Krummi var sem fyrr í markinu og Bjarni Hólm og Palli í miðvörðum. Pétur var í hægri bakverði, Þórarinn Ingi kom aftur inn í vinstri bakvörðinn og Ingvi og Andri á miðjunni. Bjarni Rúnar fór aftur útá hægri kantinn líkt og á móti Leikni, og Anton byrjaði vinstra megin. Jonah var svo framarlega á miðjunni og Atli frammi.
Það er erfitt að taka einhverja sérstaka út úr liðinu, það áttu flestallir frábæran leik. Það verður þó að minnast á Anton sem skoraði tvö mörk og átti frábæran leik í alla staði. Strákurinn var með stórhættulegar fyrirgjafir og spilaði boltanum vel frá sér. Miðjumennirnir tveir, Yngvi og Andri, áttu gjörsamlega miðjuna og sá maður nú gamla góða Andra vera að koma til baka en strákurinn hefur ekki verið í sínu besta formi í sumar, enda nánast meiddur í allan vetur. Yngvi er búinn að vera einn jafnbesti maður liðsins í sumar og steig ekki feilspor í leiknum í kvöld. Atli framherji átti einnig frábæran leik og sýndi á köfllum glæsileg tilþrif. Það er örugglega ekkert sérstaklega gaman að vera varnarmaður á móti honum enda drengurinn lygilega fljótur, með góða tækni og gefur mönnum aldrei frið. Bjarni Rúnar sýndi einnig góða takta á hægri kantinum, lét boltann rúlla einfalt og hratt eins og hann getur svo vel þegar sá gállinn er á honum. En eins og fyrr segir áttu flest allir skínandi leik í kvöld og vonandi að áframhald verði á þessu.
Næsti leikur er útileikur gegn Víkingi Ólafsvík á föstudaginn.