Fótbolti - 1 deild: Frábær þrjú stig út úr leiðinlegum leik

17.jún.2007  16:21
Eyjamenn mættu KA-mönnum á Hásteinsvelli í gær. Úrhellisrigning skall á í Vestmannaeyjum í gærmorgun og því var völlurinn vel blautur þegar leikurinn hófst og voru margir leikmenn sem áttu erfitt með að fóta sig í leiknum. Vindur var einnig nokkuð sterkur að austan sem gerði leikmönnum enn erfiðara með að ná upp spili.

Fyrstu mínúturnar voru mjög rólegar en það voru KA-menn sem áttu fyrsta hættulega færið en skot þeirra á 12. mín fór rétt framhjá. Á 19.mín hljóp Andri Ó að hliðarlínunni og teipaði hnéð á sér vel og vandlega, svo sannarlega vel að verki staðið þar hjá Andra. Þessi teiping virkaði greinilega því tveimur mínútum seinna kom glæsileg sókn hjá heimamönnum. Andri komst þá í frábært skotfæri en skaut beint á markið. Þessi sókn var nákvæmlega það eina sem Eyjapeyjar gerðu fyrstu 25 mínúturnar í leiknum og þá var stuðningsmanni ÍBV númer eitt, Kela í Íþróttahúsinu, líka nóg boðið og krafðist þess að menn færu nú að spila boltanum. Svo sannarlega vel mælt hjá Kela en því miður fylgdi liðið því ekki alveg eftir.
Yngvi "Rauða ljónið" Bor sýndi reyndar frábæra takta í lok fyrri hálfleiks er hann átti stórglæsilegt skot sem stefndi í netmöskvana en markmaður KA manna bjargaði stórglæsilega. KA menn áttu síðan síðasta hættulega færið í fyrri hálfleik er Krummi þurfti að slá lúmskt skot þeirra yfir markið. Í kjölfarið kom horn og skapaðist nokkur hætta upp við Eyjamarkið en sem betur fer varð ekkert úr því.

Heimir gerði tvær breytingar í hálfleik. Anton kom inn fyrir Inga Rafn á vinstri kantinn og Pétur kom í hægri bakvörðinn fyrir Arnór. Þetta hleypti smá lífi í leik liðsins og boltinn fór að ganga örlítið betur en í fyrri hálfleik. Á 64. mín fengu Eyjamenn hættulega aukaspyrnu á hægri kantinum og uppúr henni barst boltinn fyrir fætur Palla sem í dauðafæri þrumaði boltanum hátt yfir markið með utanfótarsnúningi. Fimm mínútum síðar var keyrt í bakið á Atla inní teig KA manna og steinlá hann í nokkrar mínútur á eftir. Spurning hvort ekki hefði átt að dæma víti en Egill Már dómari var ekki á því. Það virðist vera eins og öðruvísi reglur gildi um bakhrindingar í 1. deildinni en í úrvalsdeildinni því það sem af er sumri hafa dómarar ítrekað sleppt augljósum bakhrindingum. Yngvi var t.d. keyrður niður í fyrri hálfleik en Egill sleppti því einnig.

Á 74. mín kom eina mark leiksins. Stebbi gaf þá boltann fyrir frá hægri kantinum, boltinn rúllaði hálfpartinn í gegnum nokkra menn og eftir nokkuð klafs barst boltinn til Jonah sem rúllaði honum auðveldlega í hornið. 1-0 fyrir heimamenn. Eftir markið var eins og liðið fengi aukið sjálfstraust og komu nokkrar góðar sóknir í kjölfarið. Anton átti frábæra rispu upp vinstri kantinn á 80. mín en skaut boltanum yfir markið. Engu munaði að KA menn næðu að jafna rétt fyrir leikslok er þeir fengu mjög gott færi en Krummi bjargaði meistaralega vel og sá til þess að Eyjamenn hirtu öll þrjú stigin.

Þessi leikur er eiginlega bara koppí-peist af síðustu leikjum á undan. Fyrri hálfleikurinn var hryllilega lélegur þar sem ekkert spil náðist upp. Sem dæmi má nefna að síðustu 15 mínúturnar náðu leikmenn að meðaltali tveimur sendingum innan liðsins - já ég sagði það; tvær sendingar að meðaltali. Það segir sig auðvitað sjálft að slíkt gengur ekki upp. Eftir skiptingarnar sem Heimir gerði í hálfleik stórbatnaði leikur liðsins og boltinn fór að rúlla aðeins betur. Það er samt ljóst að ef þessi spilamennska heldur áfram þá verður að fara að gera einhverjar breytingar. Spurning hvort liðið eigi ekki að hætta að reyna að keyra hraðar sóknir, eins og lagt hefur verið upp með, og einbeita sér bara að því að spila. Leikmenn virðast ekki ráða við að sækja hratt því það eru allir að flýta sér svo mikið að það má enginn vera að því að spila. Boltanum er annaðhvort þrumað fram eða þá að allir ætla sér að eiga úrslitasendinguna sem svo ekkert verður úr. Það verður þó að virða það við strákana að aðstæður í gær voru ekki með besta móti, mikill vindur og rennandi blautur völlur, en spilamennskan hefur þrátt fyrir það verið alveg eins í þeim leikjum þar sem logn hefur verið og þurr völlur.

Inná milli í seinni hálfleik náðu strákarnir þó upp ágætis spili og sem fyrr erum við að vinna leik þrátt fyrir að vera ekki að spila vel. Það er auðvitað ótrúlegur styrkur að spila illa en vinna og liðið hefur nú haldið hreinu þrjá leiki í röð. KA-liðið er hins vegar alveg sorglega slakt lið og ljóst að þegar Eyjamenn fara að mæta sterkari liðum þá dugir ekki svona spilamennska sem sýnd var í gær.

Besti maður vallarins var Jonah Long, sem átti sinn besta leik í sumar, vann vel til baka og einn af fáu sem náði upp smá spili og svo tryggði hann okkur að sjálfsögðu öll þrjú stigin. Vörnin var áfram traust en það mæddi þó ekki mikið á henni. Anton átti frábæra innkomu og kannski að hann komi með eitthvað af því sem vantar í liðið. Einnig var gaman að sjá Matt Garner sem spilaði allan leikinn í gær og stóð sig með prýði, var reyndar stálheppinn að fá ekki rautt spjald en hann straujaði einn leikmann KA illilega í seinni hálfleik og hefði þar með getað fengið sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt en hann slapp með skrekkinn. Flestir eiga enn töluvert mikið inni.

Næsti leikur er síðan þrífrestaði leikurinn gegn Stjörnunni og verður hann á þriðjudaginn kemur á Hásteinsvelli.