Fótbolti - VISA-bikar karla: Eyjamenn sigruðu Aftureldingu í bragðdaufum leik
11.jún.2007 23:23
Eyjamenn tóku á móti Aftureldingu í þriðju umferð VISA-bikars karla á Hásteinsvelli í kvöld. Lengi dags var útlit fyrir að leikurinn gæti ekki farið fram vegna þoku en seinnipartinn "reif hann þetta af sér" eins og gárungarnir orða það og því flugfært. Blíðskaparveður lék við leikmenn og áhorfendur allan tímann en gæði knattspyrnunnar sem boðið var uppá var hins vegar ekki alveg í takt við veðrið, ef undan eru skildar fyrstu 20 mínútur leiksins. Heimamenn byrjuðu með miklum krafti og yfirspiluðu gestina þennan tæpa fyrri helming fyrri hálfleiks. Góðar sóknir, góð hlaup, góðar sendingar, mikil barátta og greinilegt að Eyjapeyjar ætluðu að selja sig dýrt. Ingi Rafn átti skot á 2. mínútu sem ekki nýttist og Guðjón Ólafsson átti síðan hörkuskot sem stefndi upp í samskeytin á 6. mínútu en markmaður Aftureldingar varði með tilþrifum. Nokkrum mínútum síðar komust Eyjamenn í stöðuna þrír á móti þremur þar sem Páll Hjarðar var allt í einu orðinn fremsti maður en á óskiljanlegan hátt fór þetta tækifæri forgörðum. Atli Heimisson átti síðan hörkuskot nokkrum mínútum seinna sem fór framhjá.
Því má segja að markið hafi legið í loftinu þegar nýji liðsmaður Eyjamanna, Atli Heimisson, skoraði glæsilegt mark eftir enn glæsilegri sókn á 12. mínútu. Eftir markið slökuðu strákarnir fullmikið á og hleyptu Aftureldingu inn í leikinn sem með smá heppni hefði getað jafnað metin. Á 33. mínútur fékk Ingi Rafn þó dauðafæri sem hann nýtti ekki og tveimur mínútum seinna þorði dómarinn ekki að dæma augljósa vítaspyrnu þegar Bjarna Hólm var hrint inní vítateig Aftureldingar.
Á 45. mínútu gerðist það svo að dómarinn og annar aðstoðardómarinn áttu eitt lengsta spjall í sögu knattspyrnunnar og voru menn ýmist farnir að tala um að nú yrði einhverjum gefið rautt spjald eða eitthvað þaðan af verra. En ótrúlegt en satt, þá gerðist ekkert eftir þetta langa spjall félaganna annað en að dómarinn flautaði leikinn á aftur. Þeir hafa sennilega verið að spjalla um hvað yrði í kaffinu eftir leik en við hefðum nú getað upplýst þá um það fyrir leikinn.
Fátt markvert gerðist svo í síðari hálfleik sem var vægast sagt drepleiðinlegur á að horfa. Egill Jó sem komið hafði inná sem varamaður átti þó tvö ágætis skot og Yngvi átti sláarskot alveg í blálokin.
Til að gera langa sögu stutta, þá má segja að eftir markið hafi botninn dottið svolítið úr leik Eyjaliðsins þrátt fyrir að hafa fengið færi sem nýttust illa. Liðið hætti að spila saman, miðjan datt alveg niður og kantarnir nýttust engan veginn. Í stað þess að spila stutt á milli manna og færa liðið þannig upp völlinn var farið í að þruma löngum boltum fram þar sem Atli mátti sín oft lítils, aleinn og yfirgefinn gegn þremur til fjórum varnarmönnum og miðjumennirnir kannski 20-30 metrum á eftir. Menn urðu einnig kærulausir og var hálfgerður kæruleysisfnykur yfir mannskapnum megnið af leiknum. Hvort það kom til vegna þess að menn töldu sigurinn öruggan eftir markið, skal ósagt látið, en það leit amk þannig út.
Það verður þó að teljast mjög jákvætt að enn er liðið taplaust það sem af er sumri og hélt nú hreinu þriðja leikinn í röð. Eins sýndi liðið frábæra spilamennsku fyrstu tuttugu mínúturnar og þessi atriði eru svo sannarlega eitthvað til að byggja á, Heimir þarf bara að reyna að berja restinni í hausinn á mönnum. Og meðan að liðið sigrar leiki þá skiptir í raun engu þótt glansboltinn sé skilinn eftir uppá hillu.
Þónokkrar breytingar voru gerðar á liðinu fyrir leikinn í því augnamiði að hvíla menn. Þórarinn Ingi og Arnór hvíldu auk þess sem Yngvi og Jonah fóru á bekkinn en Andri kom aftur inná miðjuna. Andy var einnig fjarri góðu gamni en hann er í landsleikjum með Úganda. Gaman var að sjá Guðjón Ólafsson í byrjunarliðinu í dag. Hann stóð sig með prýði fyrri part fyrri hálfleiks en var svolítið týndur það sem eftir lifði leiks. Þarf greinilega að styrkja sig en hann hefur nægan tíma til þess, enda rétt svo kominn með hvolpavitið drengurinn. Einnig var gaman að sjá Matt "The Four names" Garner á bekknum en hann æfði með liðinu í gær og er greinilegt að meiðsli hans eru á hraðari batavegi en búast var við. Hann bað kærlega að heilsa stuðningsmönnum liðsins og sagðist vonast eftir því að komast inná völlinn sem fyrst og sýna fögru leggina sína. Vörnin var annars besti maður leiksins í kvöld, ásamt nýja leikmanninum, Atla Heimissyni, sem sýndi það í kvöld að hann styrkir þetta lið gríðarlega og er akkúrat leikmaðurinn sem við þurftum. Allir aðrir geta mun betur en þeir sýndu í kvöld.
Næsti leikur er síðan á laugardaginn þegar KA menn mæta í heimsókn í ljónagryfjuna Hásteinsvöll og þýðir þá ekkert annað en að halda sigurgöngunni áfram.
Taka átti myndir úr leiknum, en eins og síðast á móti Leikni, klikkaði það aftur þar sem ljósmyndari ibv.is var plataður á síðustu stundu til að taka upp leikinn á videovél þar sem Júlíus "Ref" Ingason þóttist allt í einu kunna á venjulega myndavél og vildi frekar leika sér á hana. En þetta verður vonandi allt komið í lag fyrir næsta leik.
Liðið: Krummi-Anton vinstri bak-Pétur hægri bak-Bjarni Hólm og Palli í miðvörðum-Guðjón Ólafsson og Andri á miðjunni-Ingi Rafn og Stebbi Hauks á köntum-Bjarni framliggjandi miðjumaður-Atli Heimis frammi.
Varamenn: Kolbeinn kafteinn, Jonah Long (inn f. Stebba á 78.mín), Matt "The Four names" Garner, Egill Jó (inn f. Andra á 37.mín) , Yngvi Bor (inn f. Bjarna Rúnar á 61. mín)