Fótbolti - Heimir: Mikill baráttuleikur
09.jún.2007 10:09
Við heyrðum í Heimi þjálfara strax eftir leik í gær. Hann hafði þetta um leikinn að segja: ,,Mér fannst nokkuð jafnræði með liðunum. Bjarni Rúnar skoraði strax á fyrstu mínútu sem sló Leiknismenn örlítið út af laginu. Við nýttum okkur það hins vegar ekki og því varð leikurinn jafn og nokkuð spennandi allt þar til við Bjarni Hólm skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að brotið var á Atla. Ef eitthvað var áttu Leiknismenn hættulegri færi í leiknum en við. Þeir hafa skemmtilegt lið og þegar þeir spiluðu boltann og einbeittu sér að fótboltanum áttu þeir hættulegar sóknir. Krummi bjargaði okkur amk tvisvar sinnum mjög vel eftir að þeir komust í dauðafæri til að skora. Ég var sérstaklega hrifinn af framherjunum þeirra, Helga Pétri og Jakob Spansberg. Palli og Bjarni Hólm áttu fullt í fangi með þá.
Heimir sagði þetta hafa verið týpískan baráttuleik og að gæði fótboltans hefðu verið lítil, baráttan hefði verið í fyrirrúmi. ,,Þetta var ekki einu sinni næstbesti fótboltaleikur sem hefur farið fram. Við vissum svo sem að Leiknisliðið væri hart í horn að taka og bjuggum okkur undir það. Dómarinn missti leikinn strax úr höndunum og þá er mikilvægt að leikmennirnir haldi haus sem okkar menn gerðu mjög vel.
Mjög óhress með gervigrasið
Heimir var mjög óhress með að hafa þurft að spila á gervigrasvelli Leiknismanna. Sagði það hreint óskiljanlegt að völlurinn væri með keppnisleyfi. ,,Mér finnst algerlega óskiljanlegt að leikurinn hafi verið færður á gervigrasvöllinn þeirra. Miðað við allar reglugerðirnar sem við höfum farið í gegnum í sambandi við aðstöðu og þess háttar getur þessi völlur aldrei verið leyfilegur. Sérstaklega ef miðað er við allan þann tittlingaskít sem sett hefur verið útá Hásteinsvöllinn í gegnum tíðina. Leikir á gervigrasi verða aldrei á neinn hátt svipaðir leikjum á náttúrulegu grasi og þessi leikur bar þess merki.
Nokkrar breytingar sáust á liði ÍBV í leiknum sem voru flestar vegna meiðsla.
,,Já, nokkrar breytingar voru. Pétur er meiddur í baki og var því ekki í hópnum í dag. Einnig var Andri hvíldur í dag en hann er tæpur í náranum. Atli Heimisson byrjaði af þeim sökum frammi og stóð sig vel í sínum fyrsta leik. Hann þarf þó nokkra leiki til að slípast inn í liðið. Einnig kom Arnór aftur inn í liðið eftir meiðsli. Jonah Long kom inn á miðjuna eftir að hafa misst af leiknum gegn Fjarðabyggð. Anton Bjarna tók svo út leikbann í þessum leik.
Fyrsti sigurleikur ÍBV á útivelli í yfir tvö ár
Heimir sagði mikinn létti að hafa náð í fyrsta sigurleik sumarins. ,,Já, ekki spurning. Þetta er ekki bara fyrsti sigurinn í sumar heldur fyrsti sigur liðsins á útivelli í yfir tvö ár. Svo vonandi eru hinir dyggu og fjölmörgu stuðningsmenn okkar uppi á landi aðeins léttari í skapinu í dag. Þeir eiga það svo sannarlega skilið. Tap í dag hefði skilið okkur eftir í vondri stöðu. Hins vegar hefur það ekkert upp á sig að vera að dvelja við liðna leiki né að telja stig úr leikjum sem ekki hafa farið fram. Nú er bara að fókusera á næsta leik og aðeins hann því við getum ekki haft áhrif á aðra leiki né það sem er liðið.
Mikið álag er framundan á liðinu. Í heildina eru átta leikir á 25 dögum og ef leikurinn gegn Aftureldingu á mánudaginn er talinn með eru fjórir leikir á 10 dögum, þannig að ljóst er að mikið og erfitt verk bíður liðsins og Heimis þjálfara. ,,Það eru bara leikir, leikir og ekkert nema leikir framundan. En ef við höldum sömu baráttu eins og var gegn Leikni og byggjum áfram á varnarleiknum okkar þá kvíði ég engu. Varnarleikurinn var áfram nokkuð traustur hjá okkur gegn Leikni, við gáfum þó nokkur færi á okkur sem við höfum ekki gert áður og ég ætla að gefa Leiknismönnum allan heiðurinn af því. Baráttann og varnarleikurinn var svolítið á kostnað sóknarleiksins í gær sem við verðum að laga í næstu leikjum. En á meðan varnarleikurinn er að virka er alltaf auðveldara að laga sóknarleikinn, sagði Heimir að lokum.